151. löggjafarþing — 72. fundur,  23. mars 2021.

opinber stuðningur við nýsköpun.

322. mál
[16:16]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ef minnið bregst mér ekki hefur það verið þannig undanfarin ár að hvað varðar umsóknir um styrkveitingar og umsóknir um fé til verkefna sem eru af nýsköpunartoga hafa konur verið í miklum minni hluta alla vega fram undir það síðasta. Upphaflega var nú einhver sem lét frá sér að þetta væri birtingarmynd þess að konur héldu sig til baka, trönuðu sér ekki fram. Við sjáum þetta náttúrlega líka í pólitíkinni, að það er stundum erfitt að fá konur til að bjóða sig fram á lista. En auðvitað er þetta fortíðarvandi, fortíðarhugsun. Ég segi aftur: Ungur ferskur ráðherra með afdalahugsunarhátt, kona, glæsileg, ung — ef hún þekkir ekki þennan vitjunartíma, hvað þá með okkur gráskeggjana sem ættum kannski ekki að vera merkisberar þess að konur hasli sér völl? En auðvitað erum við það af því að við verðum, (Forseti hringir.) eins og kom svo ágætlega fram hjá hv. þingmanni, að virkja alla og við viljum virkja alla vegna þess að það skiptir okkur svo miklu máli til framtíðar og eiginlega aldrei meira en akkúrat núna.