151. löggjafarþing — 72. fundur,  23. mars 2021.

opinber stuðningur við nýsköpun.

322. mál
[16:18]
Horfa

Guðmundur Andri Thorsson (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni góða ræðu. Mér þótti athyglisverð og líkleg tilgáta hv. þingmanns að hér sé um að ræða mál sem orðið hafi til á servíettu í kaffihléi á landsfundi Sjálfstæðisflokksins. Mér þóttu líka merkilegar vangaveltur hjá hv. þingmanni um að e.t.v. sé áhugi íslenskra stjórnvalda á nýsköpun meira bundinn við ræður á tyllidögum en í raun, og e.t.v. hafi íslenskir valdamenn í fjármálalífi, þar á meðal lífeyrissjóðunum, horn í síðu nýsköpunar.

Mig langar að heyra hv. þingmann velta því fyrir sér með mér í hverra þágu þetta uppátæki er, þ.e. annarra en danskra lífeyrissjóða, sem nú þegar hafa hagnast nokkuð af þessu viðhorfi íslenskra stjórnvalda til nýsköpunar.