151. löggjafarþing — 72. fundur,  23. mars 2021.

opinber stuðningur við nýsköpun.

322. mál
[16:23]
Horfa

Ágúst Ólafur Ágústsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þingmaður sagði í ræðu sinni að Evrópusambandið kynni að halda bókhald. Það er rétt. En Evrópusambandið kann líka að styðja nýsköpun. Evrópusambandið er traustur bakhjarl nýsköpunar og rannsókna og hefur verið ansi lengi. Við sjáum að hornsteinn Evrópusamvinnunnar er að efla lítil og meðalstór fyrirtæki sem eru hryggjarstykkið í atvinnulífi í Evrópu og að sama skapi á Íslandi. Innri markaðurinn allur byggist á því að hjálpa og staðla og samræma í þágu hins smáa. Sömuleiðis ríkisstyrkjareglur Evrópusambandsins. Samkeppnisreglur Evrópusambandsins eru miðaðar að því að koma í veg fyrir að hinn stóri geti valtað yfir hinn smáa. Byggðaþróunarsjóður Evrópu hefur sömuleiðis gegnt lykilhlutverki í evrópskri nýsköpun. Þess vegna langar mig að spyrja hv. þingmann hvort hann sjái ekki tækifæri í fullri aðild Íslands að Evrópusambandinu þegar kemur að nýsköpun og framgangi rannsókna. Ég veit að hv. þingmaður er skeptískur á aðild, en sér hann a.m.k. ekki þennan kost við aðild Íslands að Evrópusambandinu? (ÞorS: Nei.)