151. löggjafarþing — 72. fundur,  23. mars 2021.

opinber stuðningur við nýsköpun.

322. mál
[16:24]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Sá sem hér stendur er ólíklegastur manna til að syngja Evrópusambandinu mikinn prís. (Gripið fram í.) Hitt er það að við Miðflokksmenn erum alþjóðasinnar, við viljum horfa vítt um veröld alla og eiga samskipti og viðskipti við sem flesta. En þrátt fyrir góða tilburði Evrópusambandsins til að styðja við nýsköpun, þrátt fyrir mjög góða viðleitni Evrópusambandsins til að styðja við landbúnað, sem er mesti einstaki útgjaldaþáttur Evrópusambandsins yfir höfuð, þá tel ég ekki að við eigum að láta af þeim yfirráðum sem við höfum yfir þeim auðæfum sem við búum yfir og landið okkar býr yfir, sem er öfundarefni mörgum þjóðum og getur verið það með réttu. Þannig að þrátt fyrir að ég vilji eiga gott samstarf við Evrópusambandið og kunni vel að meta þá styrki og þann styrk sem þeir hafa veitt hingað út af nýsköpun og fleiru er ég ekki reiðubúinn til að stíga þetta skref til fulls og ganga til samstarfs við þetta samband. Það er annað mál.