151. löggjafarþing — 72. fundur,  23. mars 2021.

opinber stuðningur við nýsköpun.

322. mál
[16:27]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það var þó nokkur eldmóður í þessu andsvari. En það er þannig, herra forseti, að ég er að eðlisfari varkár maður. Ef ég er t.d. á gönguferð og maður á undan mér veður yfir læk og fer upp fyrir stígvélin er ég ólíklegur til að fara á eftir honum. Við höfum einmitt dæmi um það af því að nágrannaþjóð okkar er nýlaus úr því nauðungarsambandi sem Evrópusambandið er og útganga þess lands, sem er nú með mestu veldum í Evrópu, bæði hvað varðar fjárhag, hernaðarmátt o.fl. Mér skilst, og nú er ég ekki búinn að lesa Brexit-samninginn til fullnustu, að lausnin að því að Bretar gátu yfirgefið Evrópusambandið var að þeir sættust á að halda eftir fjórðungi af fiskveiðiheimildum sínum í eigin löggjöf, eigin landhelgi. (Forseti hringir.) Ég verð að viðurkenna, herra forseti, að þetta þykir mér dýru verði keypt, þessi skilnaðargjöf. Ég myndi ekki vilja setja Ísland í þá stöðu að þurfa að standa frammi fyrir þessum kostum.