151. löggjafarþing — 72. fundur,  23. mars 2021.

opinber stuðningur við nýsköpun.

322. mál
[16:39]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (P) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni ræðuna, það er margt sem ég get tekið undir þar. Mig langar sérstaklega að nefna það sem þingmaðurinn nefndi varðandi framkomu gagnvart starfsfólki Nýsköpunarmiðstöðvar, af því að þessi óvissuför sem farið var af stað í fyrir rúmu ári er til skammar, svo ekki sé fastar að orði kveðið.

En mig langaði að velta öðru upp við þingmanninn, þetta var ekki aðaltilefni þess að ég vildi eiga orðastað við hann. Hv. þingmaður talaði um að vonandi og mögulega og jafnvel sennilega hefði ekki hlotist tjón af þessu ferli. Það á kannski eftir að verða skýrara þegar þessu nýja kerfi verður komið á. En einmitt vegna þess að hv. þingmaður er vel að sér í hagfræði langar mig að leyfa mér að hugsa aðeins upphátt með honum, hvort það hafi ekki verið dýru verði keypt að fara af stað í þetta. Fólk hefur flosnað upp úr starfsstöðvum úti um landið hjá Nýsköpunarmiðstöð, sem kemur væntanlega niður á getu stofnunarinnar til að styðja við nýsköpun úti um landið, og sérstaklega hefur holast innan úr þeirri deild sem styður frumkvöðla á frumstigi. Þar sem voru 20 starfsmenn áður en þessi ósköp dundu yfir eru ekki nema tveir í dag. Það er einmitt á tímum þar sem ríkisstjórnin lýsir því yfir að nýsköpun, þekking, rannsóknir og þróun séu grundvöllur efnahagsviðspyrnunnar. Er ekki bara mjög líklegt að hægt sé að reikna út gríðarlegan samfélagslegan kostnað af þeirri óreiðu sem verið hefur í nýsköpunarmálum undanfarin ár vegna þessarar ákvörðunar ráðherrans?