151. löggjafarþing — 72. fundur,  23. mars 2021.

opinber stuðningur við nýsköpun.

322. mál
[17:18]
Horfa

Guðmundur Andri Thorsson (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir hans góðu ræðu og þakka honum sérstaklega fyrir það að einbeita sér dálítið í ræðunni að því starfsfólki sem þetta hefur bitnað á, taka svari þess hér í þessum ræðustól sem ekki er vanþörf á. Það er kannski ástæða til að minna á að þetta er ekki fyrsta fólkið sem stendur í þeim sporum að starf þess er í uppnámi vegna óljósra áforma stjórnvalda um að gera eitthvað við þá stofnun sem það vinnur hjá. Við munum flutning Fiskistofu, við munum tilfærslu á starfsemi í Mannvirkjastofnun og þar fram eftir götunum.

Við höfum verið að vinna dálítið með líkinguna um millistykkið, ég er hugsa um að henda þeirri líkingu aðeins til hliðar núna, ég er orðinn pínulítið leiður á henni. Má ekki frekar líkja þessu við samgöngumiðstöð, brautarstöð? Er þetta ekki svolítið eins og að Kaupmannahafnarbúar myndu leggja niður Hovedbanegården? Má ekki líkja hlutverki og starfsemi öflugrar Nýsköpunarmiðstöðvar við samgöngumiðstöð sem tengir saman ótal samgöngumáta, skulum við segja, og ótal leiðir í ýmsar áttir en mætast þarna á þessum tiltekna stað vegna þess að þar eru allar tengingar, þarna er hægt að ná samtali við aðra sem eru að gera svipaða hluti og aðra sem eru að gera ólíka hluti og þarna er kannski líka hægt að ná sér í eldsneyti? (Forseti hringir.) Má ekki segja sem svo að skaðinn sem hér verður, sé sá að við fáum ekki þessar dýrmætu tengingar?