151. löggjafarþing — 72. fundur,  23. mars 2021.

opinber stuðningur við nýsköpun.

322. mál
[17:21]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (P) (andsvar):

Virðulegur forseti. Nú reynir á það hvort líffræðileg klukka okkar þingmannanna gangi rétt, við sjáum hvort við höldum okkur innan marka. En jú, það skiptir einmitt máli að tala um starfsfólkið vegna þess að sú tegund stjórnmálamanna sem sér ekkert annað en stofnanir og er ákveðin í að leggja þær niður af einhverri trúarsetningu gleymir bæði einstaklingunum sem þurfa að lifa í óvissu vegna þess, gleymir líka verkefnunum sem þessar stofnanir sinna, eins og þetta dæmi sýnir okkur. Ef maður sér bara stofnun og kennitölu en ekki fólk og verkefni þá gæti maður jafnvel lent í því sem ráðherra að leggja fram frumvarp sem í orði kveðnu á að styrkja við nýsköpun en tvístrar í raun öllum stuðningi við hana út um hvippinn og hvappinn þannig að hann verði miklu ómarkvissari. Ég er hrifinn af samlíkingunni við brautarstöð eða samgöngumiðstöð eða hvað það er, eitthvað sem dregur saman marga ólíka þætti og líka einhvern stað sem þú veist, ef það blundar einhver hugmynd innra með þér, að þú getur farið á þennan stað, færð kannski ekki alla þjónustuna sem þú þarft en hittir alla vega fólkið sem getur vísað þér rétta leið.

Þetta er líka nefnt í frumvarpinu varðandi styrkjaumhverfið. Það skiptir mjög miklu máli að sérfræðiþekking um styrki sé á sem fæstum stöðum þannig að fólk sem leitar fjárhagslegs stuðnings við sín verkefni geti bara bankað upp á einum stað og þar innan dyra sé síðan hægt að vísa því áfram sína leið. Þetta er hlutverk hins opinbera vegna þess að það skiptir máli að það sé einn svona staður. Hið opinbera getur staðið undir því þó að síðan séu það kannski einhverjir einkaaðilar sem sjái um útfærslu á ýmissi þjónustu. Þá getur Nýsköpunarmiðstöð vísað fólki áfram þangað eins og hún gerir.