151. löggjafarþing — 72. fundur,  23. mars 2021.

opinber stuðningur við nýsköpun.

322. mál
[17:43]
Horfa

Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir (V) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni spurninguna. Ég er henni innilega sammála. Þetta markmið kallar svolítið á mann, að það standi út af þegar verið er að telja upp hver markmiðin með málinu eru. Ég hefði viljað sjá kynjavinkil þar og er þeirrar skoðunar að nýsköpun sé einfaldlega það mikilvægt mál að það vanti töluvert upp á þegar það mál hefur ekki verið rýnt með þeim gleraugum. Ég er sjálf þeirrar skoðunar að jafnréttismálin eigi alltaf að vera leiðarstef og rauður þráður í allri svona vinnu. Mér finnst því mjög miður að skynja að svo er ekki. Það blasir auðvitað við, af því að við erum að tala um aukið aðgengi fyrir borg, fyrir landsbyggð, fyrir ungt fólk, fyrir eldra fólk, fyrir fólk af öllum kynjum, að þegar þetta vantar þá náum við aldrei fram því markmiði að virkja kraft allra.