151. löggjafarþing — 72. fundur,  23. mars 2021.

opinber stuðningur við nýsköpun.

322. mál
[17:44]
Horfa

Olga Margrét Cilia (P) (andsvar):

Takk fyrir þetta. Það gleður mig að heyra að hv. þingmaður er sammála mér í þessu. Það er nefnilega svo merkilegt og mér finnst ótrúlegt hvað mikið er talað um hátækni í þessu frumvarpi. Það er bara eins og hátækni sé það eina sem skiptir máli og það eina sem við viljum vera stolt af. Hátækni leysir ekki öll mál. Það er búið að vera svolítið í umræðunni síðustu árin að það þurfi bara app fyrir allt eða að það þurfi að leysa þetta einhvern veginn. Mér finnst það lýsa vanskilningi á tilgangnum með tækni yfir höfuð. Eins og ég kom aðeins inn áðan verður tækni að vera samfélögum til framdráttar og þótt það sé gott og blessað að tæknin sé í forgrunni í nýsköpun þá verðum við líka að tryggja aðgengi fyrir öll að gerð þeirrar tækni. Ef hún á að nýtast okkur öllum og ýta samfélaginu áfram þá verða öll að hafa aðgengi að þeirri þróun. Ég hefði frekar viljað sjá þetta frumvarp byggt á háleitari markmiðum. Er hv. þingmaður sammála mér í því, háleitari markmið fyrir meiri fjölbreytileika og eitthvað sem við Ísland getum verið stolt af sem þjóð? Verið hefur mikil framþróun í hátækni og það eru önnur svið sem eru kannski, vil ég segja, minna karllæg og hægt að auka veg þeirra og virðingu.