151. löggjafarþing — 72. fundur,  23. mars 2021.

opinber stuðningur við nýsköpun.

322. mál
[17:46]
Horfa

Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir (V) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég er hv. þingmanni einlæglega sammála og kannski er ákveðin mótsögn í umræðu um nýsköpun, sem maður sér fyrir sér að sé regnhlíf yfir frjóa hugsun og kraft, ef sjónarhornið þar er þröngt. Manni finnst það ekki geta farið saman að tala um samfélagið og að stjórnvöld ætli að stuðla að því að efla nýsköpun og vera síðan með mjög þröngt sjónarhorn á hvað felst í nýsköpuninni. Nýsköpunin er auðvitað ekki eitthvað eitt heldur er hún alls konar. Það er líka dálítið sérstakt í samhengi við þarfir atvinnulífsins, ef sú er reyndin, því að við tölum auðvitað mjög mikið um nýsköpun í samhengi við þá staðreynd að atvinnulífið er fremur einsleitt og það er þess vegna fremur viðkvæmt. Við þolum áföll verr vegna þess að atvinnulífið er einsleitt og ef við ætlum síðan að víkka hringinn og sviðið og það hvað atvinnulífið getur orðið, þá þarf sjónarhornið að vera vítt. Ég hef ekki alveg forsendur til að meta það sem hv. þingmaðurinn nefnir með hátækni eða tæknina en gæti alveg trúað því að í þessu frumvarpi, eins og svo mörgum öðrum, hafi gleymst að huga að því að kynin öll eru ólík. Það er mjög miður ef það speglast ekki í þessu máli.