151. löggjafarþing — 72. fundur,  23. mars 2021.

opinber stuðningur við nýsköpun.

322. mál
[17:50]
Horfa

Rósa Björk Brynjólfsdóttir (Sf):

Herra forseti. Hér erum við með umdeilt frumvarp í höndunum sem fjallar í raun fyrst og fremst um að verið er að bregðast við þeirri ákvörðun ráðherra að leggja niður Nýsköpunarmiðstöð Íslands og koma á fót Tæknisetri Íslands, sem er nokkuð stór breyting á stuðningi við svokallað vistkerfi nýsköpunar á Íslandi, og sá miðpunktur lagður niður sem borið hefur meginþungann og meginábyrgðina á stuðningi við íslenska frumkvöðla og íslenska nýsköpun frá því að miðstöðin var stofnuð árið 2007, fyrir 14 árum. Það sem eru eiginlega mestu vonbrigðin er að í þessu frumvarpi er því miður ekki að finna sterka, skarpa og skýra sýn á framtíð nýsköpunar á Íslandi, sem er ótrúlega dapurlegt á tímum þegar bæði er ákall eftir því og fagrar ræður og fögur fyrirheit ráðherra og stjórnarþingmanna gefa til kynna að lögð verði áhersla á nýsköpunina sem bestu leiðina út úr Covid. En hvorki fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar fyrir næstu fimm ár gefur það til kynna né þetta frumvarp hæstv. atvinnuvegaráðherra sem við ræðum hér. Þrátt fyrir fögur markmið um að efla nýsköpun á landsvísu, stuðning við nýsköpun á sviði hátækni og forgangsröðun verkefna og að draga eigi úr yfirbyggingu og auka sveigjanleika svo opinbert fé nýtist sem best til þeirra verkefna er það dapurleg staðreynd að þeim fögru fyrirheitum er bara alls ekki fylgt eftir í þessu frumvarpi, eins og 34 erindi og umsagnir við það bera með sér. Mikill meiri hluti þeirra var neikvæður og innihélt miklar áhyggjur af stöðu frumkvöðla sem eru að stíga sín fyrstu skref, áhyggjur af stuðningi við nýsköpun á landsbyggðinni, áhyggjur af stöðu á fjármögnun byggingarrannsókna í framhaldi af niðurlagningu Nýsköpunarmiðstöðvar, áhyggjur af rekstrarformi Tækniseturs, fjármögnun og óljósu hlutverki þess og, herra forseti, einfaldlega áhyggjur af því að með frumvarpinu væri verið að draga verulega úr stuðningi við nýsköpun í víðari skilningi.

Herra forseti. Það er ekki skrýtið að öll þessi rauðu viðvörunarljós kvikni og allar þessar áhyggjur fagaðila í nýsköpunarumhverfinu hrannist upp. Tilefni lagasetningarinnar hér er óskýrt og lagafrumvarpið, sem á að vera um opinberan stuðning við nýsköpun, fjallar í raun og veru aðeins um það verkefni að leggja niður Nýsköpunarmiðstöð Íslands og setja á fót tæknisetur, eins og ég sagði áðan. Það hefði mátt skilja fyrirsögn frumvarpsins svo að í því yrði fjallað ítarlega um hvernig standa ætti að opinberum stuðningi við nýsköpun og við frumkvöðlastarf, eins og heiti frumvarpsins ber með sér. En það tækifæri er ekki nýtt. Því dauðafæri er fórnað.

Í frumvarpið vantar nefnilega sýn á hvert hlutverk hins opinbera, ríkisins, eigi að vera og hvernig þjónustu við mikilvæga aðila í hringrás nýsköpunar sé best háttað. Þar vantar einnig útfærslu á mikilvægri þjónustu, t.d. við frumkvöðla á fyrstu stigum, stuðning við alþjóðasókn og alþjóðlegt samstarf og hvaða sýn við höfum á það að takast á við mikilvægar áskoranir, t.d. á sviði loftslagsbreytinga og annarra stórra samfélagslegra áskorana, auk fjölþættra afleiðinga Covid-19 faraldursins og annarra áskorana. Greiningarvinnan, sem leggja hefði átt til grundvallar á þeim breytingum sem felast í niðurlagningu Nýsköpunarmiðstöðvar og svo í þessu frumvarpi hér, er einfaldlega ekki til staðar. Hér er nefnilega bara verið að predika í söfnuðinn, eins og hv. þm. Guðmundur Andri Thorsson sagði í andsvari sínu áðan. Og í þeirri predikun ráðherra er millistykkið, sem hv. þm. Andrési Inga Jónssyni var umhugað um, niðurlagning Nýsköpunarmiðstöðvar, en án allrar greininga eða framtíðarsýnar.

Herra forseti. Tölum aðeins um stöðu nýsköpunar og nýsköpunarumhverfisins á Íslandi. Tölum aðeins um sýnina, hvernig og hvert hlutverk ríkisins á að vera, hvernig þjónusta við mikilvæga aðila í hringrás nýsköpunar væri best úr garði gerð. Eins og fram kemur í mjög góðri umsögn Kristjáns Leóssonar, þróunarstjóra nýsköpunarfyrirtækisins DT-Equipment ehf., þá jukust heildarútgjöld til rannsókna og þróunar á Íslandi á árunum 2013–2015 sem hlutfall af vergri landsframleiðslu verulega, úr 1,7% í 2,2%. En sú aukning kom eingöngu til vegna hækkunar á hlut fyrirtækja, sem jókst um tæpan helming á þessu tímabili, á meðan rannsókna- og þróunarframlag ríkisins til háskóla og opinberra stofnana lækkaði á sama tíma sem hlutfall vergrar landsframleiðslu úr 0,78% niður í 0,75%. Má ég líka minna á hverjir voru við stjórnvölinn á árunum 2013–2015? Það voru stjórnarflokkarnir, Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur. Á árunum 2016–2018 lækkuðu svo framlög til rannsókna og þróunar í öllum ofangreindum flokkum. Heildarútgjöld til rannsókna og þróunar drógust saman og fóru niður í 2% af vergri landsframleiðslu. Aftur var lækkunin hlutfallslega mest hjá opinberum stofnunum og hafði þá hlutur opinberra stofnana í rannsókna- og þróunarútgjöldum dregist saman um þriðjung á fimm árum, frá 2013 til 2018. Þessar staðreyndir byggja á gögnum frá Hagstofu og samantekt upplýsinga fyrir árið 2019.

Herra forseti. Það að draga úr útgjöldum til rannsókna og þróunar opinberra stofnana á fimm árum um heilan þriðjung eru gríðarlega skýr skilaboð, pólitísk skilaboð, um að hið opinbera og þeir flokkar sem voru við stjórnvölinn á árunum 2013–2015 halda áfram stefnunni í núverandi ríkisstjórnarsamstarfi og halda um stjórnartaumana og draga áfram úr fjármögnun til rannsókna og þróunar opinberra stofnana. Það er nefnilega svo að þetta er pólitík. Með því að auka eigin framlög til háskóla og opinberra rannsóknastofnana eru stjórnvöld líka að hvetja til rannsókna- og þróunarumsvifa í einkageiranum. Ég kem nánar að því samspili á eftir.

Hagstofan er með gríðarlega áhugaverðar tölur í þessu samhengi. Hún birti samanburð á dreifingu útgjalda í rannsóknum og þróunum milli landa í Evrópu árið 2017. Þar sést skýrt að Ísland er nálægt meðaltali Evrópusambandsins í heildarútgjöldum til rannsókna og þróunar sem hlutfall af vergri landsframleiðslu, en meðaltal Evrópulanda var 2,07% það ár. Hlutur opinberra stofnana er hins vegar að meðaltali 2,5-falt lægri á Íslandi en í löndum Evrópusambandsins, eða 0,09% miðað við 0,23%. Þannig að við erum aftarlega á merinni þegar kemur að því að styðja við opinberar stofnanir og rannsóknastofnanir og háskóla þegar kemur að rannsóknum og þróun. Við stöndum langt að baki mörgum nágrannaþjóðum okkar í fjármögnun opinberra stofnana í rannsóknum og þróun. Það er staðreynd sem við þurfum að horfast í augu við. Við þurfum að ákveða hvort við ætlum að halda áfram á þessari braut og láta einkamarkaðinn og hinn frjálsa markað eingöngu um nýsköpun, þróun og rannsóknir, eða hvort við ætlum að styrkja okkar opinberu stofnanir til dáða vegna þess að þær eru hryggjarstykkið í nýsköpun, ekki bara hér á Íslandi, heldur höfum við séð dæmi, rannsóknir, greiningar og skýrslur um að það er nákvæmlega formúlan að góðum árangri þegar kemur að nýsköpun í nágrannaríkjum okkar.

Við skulum samt sem áður halda því til haga, eins og fram kemur í greinargerð frumvarpsins og eins og bent er á í umsögn Kristjáns Leóssonar, að það er rétt að stjórnvöld hafa stóraukið endurgreiðslur á rannsóknar- og þróunarkostnaði til fyrirtækja undanfarinn áratug. Það hefur hleypt blóði í rannsókna- og þróunarstarf innan þeirra, sem er jákvætt. En þessar endurgreiðslur eru til fyrirtækja. Þó að það sé gott að nýsköpun eigi sér stað innan fyrirtækja þá er það ekki sjálfgefið að hún sé sjálfkrafa þjóðhagslega hagkvæm. Hún getur alveg eins stefnt að aukinni hagræðingu og lækkun kostnaðar, sem gæti t.d. leitt til fækkunar starfa til lengri tíma o.s.frv. Hún getur líka verið nauðsynleg fyrir fyrirtæki, t.d. til að styrkja stöðu þeirra í alþjóðlegri samkeppni, en á móti þarf að koma nýsköpun sem skapar ný tækifæri, ný fyrirtæki og ný störf. Að stórum hluta sprettur það frá hinu opinbera, frá opinberum stofnunum, opinberum háskólum, opinberum rannsóknastofnunum. Þó að þær séu ekki eini staðurinn sem skapar tækifæri til nýsköpunar þurfa þær að vera sterkur leikari á sviðinu þegar við erum að tala um nýsköpun. Það er nefnilega lykilatriði að ríkisvaldið sé í algeru návígi við einkageirann með það að markmiði að tengja saman aðila, koma auga á ný tækifæri, stofna til samvinnuverkefna sem styðja má með erlendu rannsóknarfjármagni, t.d. frá því Evrópuþjóðasamstarfi sem íslenska ríkið greiðir fyrir þátttöku í, stuðla að innleiðingu tækninýjunga í íslensku atvinnulífi og auðvelda einstaklingum og smærri fyrirtækjum að hasla sér völl á sviði tækniþróunar. Þannig kemur hið opinbera inn á leiksviðið og er svo nauðsynlegur leikari. Þetta er nefnilega leiðin fram á við. Það er ekki að halda áfram þeirri pólitík að draga úr fjármögnun til opinberra stofnana þegar kemur að nýsköpun, rannsóknum og greiningu en grobba sig svo af því að vera að setja peninga og fjármuni inn í einkageirann, heldur verður hitt að vera með.

Íslenskir háskólar hafa náð frábærum árangri í vísindastarfi sem tekið hefur miklum framförum hérlendis á undanförnum áratugum. Sá árangur virðist því miður ekki að nægilegu leyti hafa skilað sér í þeim breytingum á samsetningu atvinnulífs sem stefnt var að með stóraukinni fjölgun háskólamenntaðra og auknu rannsóknartengdu framhaldsnámi á tíunda áratug síðustu aldar þegar við ætluðum að mennta okkur til velsældar. Við höfum gert það, en það skortir samt sem áður, fyrst við tölum um millistykki, að tengja þetta síðan saman við atvinnulífið, nákvæmlega. Því miður sýna tölur að samkeppnishæfni Íslands hefur farið lækkandi undanfarin ár í alþjóðlegum samanburði. Á árunum 2015–2017 sat landið í 13. sæti á lista Global Innovation Index, en á árunum 2018–2020 hefur Ísland fallið niður í 20.–23. sæti. Þetta hefur gerst þrátt fyrir nokkuð stöðugan og jákvæðan árlegan hagvöxt á sama tímabili.

Styrkleiki Íslands hefur verið fjöldi birtra vísindagreina og hlutfall rannsókna sem styrktar eru með erlendu fjármagni úr erlendum vísindasjóðum með þátttöku á alþjóðasviði, í alþjóðlegu samstarfi á vettvangi rannsókna, greininga og háskólastarfs. Veikleikar okkar eru lágt hlutfall há- og millitæknivarnings í innlendri framleiðslu og í útflutningi. Því miður þurfum við að bæta okkur mjög þegar kemur að fjölda útskrifaðra háskólanema úr vísinda- og tæknigreinum, en við erum í 91. sæti af 106 löndum á samanburðarlistum og því miður hafa átaksverkefni stjórnvalda ekki skilað nægilega góðum árangri þegar kemur að því. Þetta er sorgleg staðreynd og mikil áskorun þegar við horfum til opinberra stofnana, háskólanna okkar, menntakerfisins okkar, en sömuleiðis til opinberra stofnana á vettvangi nýsköpunar. Þessu verðum við að snúa við.

Hvað er þá hægt að gera? Nú á tímum heimsfaraldurs og mikillar þarfar á sterkum og skýrum viðbrögðum við heimsfaraldri hefur verið talað um græna viðspyrnu og áherslu á nýsköpun út úr þeirri kreppu. Það styð ég og mun alltaf styðja. Það eru líka eðlileg viðbrögð vegna þess að við þurfum að búa til verðmæt störf. Við þurfum að mennta þjóðina en líka búa til verðmæt störf sem bíða okkar þegar við erum búin að mennta okkur. Partur af þeim viðbrögðum við heimsfaraldrinum væri að efla verulega opinbera tæknirannsóknastofnun á sviði nýsköpunar og styrkja rekstur opinberrar stofnunar sem hefur það hlutverk að brúa bil milli rannsókna og markaðarins. Það eru eðlileg viðbrögð í staðinn fyrir að draga úr og leggja niður til þess eins að predika í söfnuðinn, án allrar greiningar og án allra stoða undir þá ákvörðun.

Herra forseti. Ég vil vekja athygli á minnihlutaáliti tveggja þingmanna í hv. atvinnuveganefnd, nefndaráliti við frumvarpið sem við ræðum hérna. Það er ritað af framsögumanni álitsins, hv. þm. Albertínu Friðbjörgu Elíasdóttur, og með henni á álitinu er hv. þm. Helgi Hrafn Gunnarsson. Ég styð að sjálfsögðu þetta góða og ítarlega nefndarálit þar sem þau nefna að það sé einfaldlega ekki hægt að styðja þetta mál, það skorti algjörlega allan grunn við frumvarpið, það þurfi að undirbúa málið miklu betur, það þurfi meiri vinnu við það.

Ég er algerlega sammála þeim sem hafa sagt: Já, að sjálfsögðu eigum við að fara í úttekt á stofnun á borð við Nýsköpunarmiðstöð. Við eigum að fara reglulega í úttekt á því hvað virkar vel, hvað virkar síður, hvort það sé eitthvað sem við getum gert til þess að straumlínulaga stofnunina og starfsemi hennar, hvort hægt sé að ráðast í einhverjar aðgerðir. En það hefði verið hægt að gera það í formi úttektar af hálfu hæstv. ráðherra atvinnuvegamála, eins og aðrar þjóðir gera. Þannig hefði verið tilbúinn grunnur að því að auka og efla og dýpka skilninginn á eðli nýsköpunar og stuðning við hana hér á Íslandi og koma fram með sterka tillögu um hvernig framtíðarsýn okkar getur verið og hvernig við ætlum að stefna að því að gera okkur að því nýsköpunarlandi og -ríki sem svo mörg okkar vilja. (Forseti hringir.) Þar verðum við að spila á styrkleika okkar í orkuiðnaði, í sjávarútvegi. Þar liggja styrkleikar okkar m.a. og reynsla. (Forseti hringir.)

Þar sem herra forseti er farinn að klingja bjöllum ætla ég ekki að hafa þetta lengra (Forseti hringir.) en ég myndi gjarnan hafa viljað vera hér að ræða frumvarp sem væri framsýnna, framúrstefnulega og betur unnið.

(Forseti (ÞorS): Forseti minnir á tímamörk.)