151. löggjafarþing — 72. fundur,  23. mars 2021.

opinber stuðningur við nýsköpun.

322. mál
[18:18]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það að leggja niður Nýsköpunarmiðstöð Íslands án þess að orðið sé skýrt hvað eigi að taka við tel ég að geti haft mjög skaðlegar afleiðingar fyrir nýsköpunarumhverfið á Íslandi, sér í lagi á næstunni, einmitt þegar við þyrftum að hafa hvað mestan fyrirsjáanleika og mestan stuðning innifalinn í kerfinu sem er til staðar nú þegar. Það er af þeirri ástæðu sem ég er á móti þessu máli þótt ég sé mjög ánægður með vinnu meiri hluta atvinnuveganefndar. Ég vil segja það hér aftur að þar átti sér stað fyrirmyndarvinna og meiri hlutinn lagði sig allan fram við að hafa minni hlutann með sér, upplýsa minni hlutann á öllum stigum o.s.frv. Þrátt fyrir þetta og þrátt fyrir ágætar breytingartillögur er inntakið sjálft í frumvarpinu rangt. Ég man ekki hvernig hann orðaði það svo glæsilega hér áðan en tilfinningin væri sú að þetta hefði verið einhver hugmynd sem fæddist einhvers staðar yfir kaffibolla, að leggja niður Nýsköpunarmiðstöð Íslands, og það væri svo frábær hugmynd og með því að gera það væri hægt að gera svo marga hluti. En svo var lagt í þessa vegferð áður en það var hugsað til enda hvað ætti að koma í staðinn. Það millibilsástand sem óhjákvæmilega mun verða til í kjölfarið á þessu tel ég að verði mjög skaðlegt.

Hvað varðar starfsfólk Nýsköpunarmiðstöðvar þá finnst mér svolítið erfitt að tala sérstaklega fyrir hönd þess starfsfólks. Ég veit að eitthvað af því mun líta til einkageirans og nýta starfskrafta sína þar vegna þess að það er ekki eins og þetta fólk sé bara á einhverjum ríkisspena. Þetta eru sérfræðingar sem hafa sérfræðiþekkingu sem er nytsamleg. Vandinn sem við horfumst í augu við er að mögulega missum við þetta fólk úr því kerfi sem við höfum búið til til þess að aðstoða fólk á fyrstu stigum. Það er akkúrat þá þegar fólk getur ekki greitt fyrir vinnuna og hefur ekki færi á því að átta sig einu sinni á því hvort það borgi sig að setja peninga í ráðgjöf og leiðsögn fyrr en hugmyndin er komin lengra. (Forseti hringir.) Það er á þeim stigum sem við þurfum að hafa þessa sérfræðinga í vinnu við að veita gjaldfrjálsa þjónustu. Ég óttast að við töpum því.