151. löggjafarþing — 72. fundur,  23. mars 2021.

opinber stuðningur við nýsköpun.

322. mál
[18:25]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P):

Forseti. Þetta er áhugavert mál um opinberan stuðning við nýsköpun. Þetta er önnur ræðan mín og ég vil taka undir lokaorð síðasta ræðumanns í andsvörum um það vandamál sem við glímum við vegna þessa máls. Það er einfaldlega búið að moka burt því sem nú er og það verður eitthvað að koma í staðinn. Kemur það sama aftur? Líklega er það ekki best því að búið var að biðja um ákveðnar betrumbætur á fyrirkomulagi Nýsköpunarmiðstöðvar. Það vissu það allir og það voru allir að búast við slíkum tillögum. En þetta kom í staðinn og öllu var hent burt. Á þeim tíma sem öllu var hent burt lágu engar tillögur fyrir um það hvað ætti að koma í staðinn. Þetta frumvarp, sem kemur þó nokkru seinna fram, er tillaga um hvað eigi að koma í staðinn og það er gríðarlega tómlegt, ef þannig má orða það.

En allt í lagi, höldum kannski aðeins í vonina. Það var verið að leggja fram fjármálaáætlun til næstu ára, 2022–2026. Í fjármálaáætlun leggur ríkisstjórn fram stefnu sína, hvernig eigi að haga hlutum í hinum og þessum málaflokkum til næstu fimm ára. Kannski er þessi rammi um opinberan stuðning við nýsköpun útskýrður betur í fjármálaáætlun. Það gæti verið. Það ætti að sjálfsögðu að vera svo, óháð því hvort það er gert í þessu frumvarpi eða ekki. En viti menn: Nei, það er einfaldlega ekki gert. Á bls. 136 er kafli sem fjallar um aukna nýsköpun og vöxt með hagnýtingu gagna en ekkert þar fjallar um nýsköpunarumhverfið eins og það á að vera. Í þessari fjármálaáætlun ákveða stjórnvöld að setja enga stefnu fram, vísa í stefnuna sem þau lögðu fram fyrir áramót og sú stefna var einmitt engin stefna heldur, hún náði fram að kosningum eða svo í langflestum flokkum, nokkur mál sem náðu fram yfir það, uppbygging vegna stafrænna innviða, sem kom sem innspýting vegna Covid-faraldursins, lifir eitthvað áfram og eins tillögur um framlög í loftslagsaðgerðir sem eru í raun tilfærsla frá varasjóði, sem var vegna átaks vegna faraldursins. Það var lagt í varasjóðinn og nú er það kynnt sem aukið framlag í loftslagsmál en er í raun bara millifærsla frá varasjóði yfir í loftslagsmál.

Þetta er svona í öllu. Það er engin sýn, engin stefna í því hvernig nýsköpunarumhverfið eigi að líta út þegar þetta frumvarp verður samþykkt. Og frumvarpið er gríðarlega rýrt að efni. Það eru bara nokkrar greinar um tilhögun stjórnar og rosalega grófur rammi um það hvað eigi í raun og veru að fara fram í þessu tæknisetri, og búið. Hitt verður einhvern veginn fyllt inn í einhvern tímann, með einhvers konar geðþóttaákvörðunum ráðherra þegar allt kemur til alls. Það er búið að bæta hérna aðeins við í nefndaráliti meiri hluta umfjöllun um stafrænar smiðjur og ráðgjöf og þess háttar og í breytingartillögu varðandi tilfærslu á Kríu til sóknaráætlana, til landshluta, — sem átti að vera hvort eð er, þetta er tvítekning, það er verið að reyna að fá hrós tvisvar fyrir sömu tillöguna. Rosalega dæmigert fyrir þessa ríkisstjórn, það kemur svo lítið frá henni að hún þarf að monta sig oft af sama hlutnum. Það gerðist í kjarabaráttunni varðandi lífskjarasamninga. Rétt áður en þeir voru samþykktir var boltinn hjá stjórnvöldum. Þau þurftu að koma með almennilegar tillögur til að betrumbæta lífskjarasamningana og tillögurnar sem komu voru að langmestu leyti tillögur sem þegar var búið að kynna í fjármálaáætlun; þær voru kynntar sem nýjar tillögur inn í lífskjarasamningunum.

Þetta er sagan frá A til Ö með þessa ríkisstjórn. Við höfum öll séð litabækur þar sem engar myndir eru til staðar heldur bara tölur, og varla tölur, maður er kannski með minna en helminginn af tölunum sem þarf til að draga upp myndina áður en maður getur síðan farið að lita hana. Það er ekki þannig að maður geti rakið slóðina með pennanum til að draga útlínurnar upp heldur þarf maður að giska hvar næsta tala er. Þetta er lýsing á því hvernig tilhögun opinbers stuðnings við nýsköpun verður vegna þessa frumvarps. Og fjármálaáætlunin, eins og ég bætti við í annarri ræðu minni, af því að ég bjóst kannski við að það væri eitthvað þar um nýsköpun, eitthvað sem myndi útskýra betur hver framtíðarsýn stjórnvalda væri. En nei, það er ekki þannig. Þetta fjallar aðallega um gervigreind, helmingurinn af textanum fjallar um hlutverk gervigreindar í íslensku samfélagi; rammagrein 16, gervigreind fyrir alla þjóðina, sem er ágætlega greind nú þegar, kannski væri gervigreind mjög gagnleg til viðbótar, það er rétt, en ekkert um nýsköpunarumhverfið sjálft.

Þar stendur hnífurinn í kúnni, þegar allt kemur til alls. Á þessum tímum voru flestir að leggja nýsköpun til sem lausn úr þeim vanda sem við erum í vegna stöðunnar á vinnumarkaði, að nýsköpun væri leiðin út úr þessum atvinnuvanda. Það er ekki ný hugmynd. Það er hugmynd sem hefur verið til frá því um aldamótin, að búa til nýja stoð í íslensku atvinnulífi sem er fjölbreytt. Stór en fjölbreytt. Ekki stór og einhæf eins og við höfum hingað til verið með í sjávarútvegi, í áli eða í orkuiðnaðinum, sem fer allur í álið, í bankageiranum og í ferðamannaiðnaðinum. Það er mjög einhæfur tilgangur á bak við þær atvinnugreinar þegar allt kemur til alls. Minni háttar flökt í þeim stoðum hefur meiri háttar áhrif á efnahag Íslands. Við viljum hins vegar stóra og breiða stoð nýsköpunar þar sem minni háttar flökt hefur sama og engin áhrif á þá stoð og á efnahag landsins af því að nýsköpunin nær til svo fjölbreyttra verkefna. Þar hefur það sýnt sig, í skýrslum Tækniþróunarsjóðs og hjá Nýsköpunarmiðstöð, að ábatinn af því að hið opinbera sinni þessari stoðþjónustu er rosalega mikill. Ekki nóg með það, heldur eru hugmyndirnar og tækifærin bókstaflega til úti um allt land. Við sáum það einmitt nú í lok sumars þegar umsóknir bárust í Tækniþróunarsjóð þar sem einungis 8% umsókna voru samþykkt. Það er heill hellingur af hugmyndum sem eru tilbúnar til þess að komast af stað, koma af stað nýjum verkefnum, búa til atvinnu og búa til verðmæti, búa til betra líf fyrir fólk úti um allt land. En eins og kom fram síðasta vor, þegar stjórnarandstaðan lagði til þrefalt hærri upphæð í nýsköpun en stjórnin gerði, sexfalt hærri til að byrja með, stjórnin bætti þó aðeins í, var sú upphæð sem stjórnarandstaðan lagði til nokkurn veginn nákvæmlega það sem gat nýst fyrir það tímabil. Það var stjórnarandstaðan sem hafði rétt fyrir sér þar, ekki stjórnin. Hún vanmat bæði faraldurinn og getu og hugmyndaauðgi fólks úti um allt land til að skapa betra líf fyrir okkur sem búum hér á landi.