151. löggjafarþing — 72. fundur,  23. mars 2021.

opinber stuðningur við nýsköpun.

322. mál
[18:43]
Horfa

Guðmundur Andri Thorsson (Sf):

Virðulegi forseti. Ég hef nú setið hér í dag og fylgst með umræðum um þetta mál sem ég skal játa að ég hafði ekki verulega þekkingu á umfram aðra þingmenn og hef raunar ekki enn þá. En þetta er engu að síður fróðlegt fyrir margra hluta sakir. Það má segja að þetta sé dæmigert mál fyrir ríkisstjórnina að mörgu leyti. Aðeins fyrst, til að taka upp þráðinn frá hv. þm. Birni Leví Gunnarssyni, um rekstrarformið. Þetta er ekki opinbert hlutafélag eins og við höfum einhver dæmi um og enginn skilur kannski alveg út á hvað ganga. Þetta er einhvers konar einkaopinbert hlutafélag eða opinbert einkahlutafélag og vandséð til hvers er eiginlega verið að standa í öllu þessu vafstri með rekstrarformið nema kannski að þarna ráði einhverjar hugmyndafræðilegar ástæður. Stundum finnst manni eins og varðandi nýsköpun hér á landi ráði mottóið: Leyfum 100 blómum að blómstra og visna. Leyfum 100 blómum að visna. Leyfum 100 blómum að skjóta aðeins upp kollinum, lifa í einhvern smátíma en svo kemur hið óhjákvæmilega hret og þau fá að deyja. Við komum einhverju af stað. Við setjum eitthvað í gang. En svo látum við undir höfuð leggjast að hlúa nægilega vel að þeim græðlingum sem við höfum sett í mold. Við gleymum þeim og við látum næðinginn um þessa græðlinga í stað þess að hlúa að þeim og með þeim árangri að upp komi einhver vöxtur sem getur skilað okkur árangri og verið til mikils sóma, eins og við höfum raunar dæmi um.

Báknið burt, það er talað um það og það virðist vera yfirskriftin að þessum tilfæringum öllum. En svo reynast þetta vera einhverjar tilfæringar með rekstrarform og tilflutninga, jafnvel milli landshluta, þ.e. báknið fer ekki burt, enda er kannski ekki um að ræða bákn. Báknið er pólitískur merkimiði. Það er pólitísk áróðurssetning. En þessi stefna um að leggja niður opinberar stofnanir, eða vera að grauta í opinberum stofnunum í nafni þess að báknið skuli fara burt, hefur bitnað á mörgum þjóðþrifastofnunum, nú síðast Neytendastofu. Við höfum dæmi um fjármálaeftirlitið. Við erum hérna á eftir að fara að ræða um skattrannsóknarstjóra og svo er það Nýsköpunarmiðstöð. Hér er sem sagt verið að tala um að leggja niður þann aðila sem hefur annast stuðning við frumkvöðla á Íslandi allt frá árinu 2007 og þarna innan veggja hefur orðið til þekking hjá starfsfólki. Starfsfólkið kemur og fer en innan stofnunarinnar er engu að síður áfram til staðar tiltekin þekking. Við köllum þetta stofnanaminni og við gleymum því stundum hvað það er mikilsvert að eiga slíkt stofnanaminni og hvað það er mikilvægt fyrir þá sem leita til viðkomandi stofnana að slíkt stofnanaminni sé til staðar. Það sést líka vel á mikilvægi málsins og mikilvægi þessarar stofnunar. Það sést á þeim mikla fjölda umsagna sem borist hafa til nefndarinnar. Það eru 34 innsend erindi og umsagnir og gestir eru 86, sem mættu til fundar við nefndina. Eftir því sem mér skilst þá viðruðu þessir gestir, fleiri en einn og jafnvel meiri hluti þeirra, og eins vitna þessi innsendu erindi um það, efasemdir, svo ekki sé sterkar að orði kveðið, um þessi áform. Það voru viðraðar áhyggjur. Það voru viðraðar áhyggjur sérstaklega af þeim frumkvöðlum sem eru að stíga sín fyrstu skref. Það voru viðraðar áhyggjur af stuðningi við frumkvöðla og frumkvöðlastarfsemi og nýsköpun í hinum dreifðu byggðum landsins, landsbyggðunum. Það voru viðraðar alveg sérstakar áhyggjur af því hvernig myndi fara fyrir byggingarrannsóknum þegar Nýsköpunarmiðstöðin hefur verið lögð niður. Það þarf ekki að fara mörgum orðum um mikilvægi þeirra rannsókna hér á landi þar sem það er alveg sérstök kúnst að reisa hús sem okkur hefur gengið mjög misjafnlega að ráða fram úr, svo að ekki sé fastar að orði kveðið. Það er verið að rífa nýleg hús vegna myglu vegna þess að þau eru ekki byggð í samræmi við íslensk veðurskilyrði og íslenska náttúru. Það liggur ekki næg þekking að baki byggingunum og þar hefur stofnun á borð við þessa náttúrlega sérstöku hlutverki að gegna. Það voru líka viðraðar áhyggjur af rekstrarformi tækniseturs, sem ég gerði hér að umtalsefni, fjármögnun þess og óljósu erindi og óljósu hlutverki. Það er sem sagt verið að draga úr stuðningi við nýsköpun í víðum skilningi og margir gestir lýstu yfir áhyggjum af því.

Það hefur verið rætt hér nokkuð í dag, það sem ég hef heyrt af mörgum snjöllum ræðum, um svona stofnun sem millistykki. Þetta er millistykki milli atvinnulífsins og akademíunnar. Þetta er millistykki milli atvinnulífsins og skapandi greina, skapandi aðila, og þetta er millistykki milli skapandi aðila og akademíunnar. Það er kannski betri líking að líkja þessu við nokkurs konar samgöngumiðstöð. Þarna er allt til alls. Þarna er allt til reiðu. Þarna er fólk sem hefur þekkingu. Þarna er eldsneyti og þangað geta allir leitað til þess að fá þá þjónustu sem þeir þurfa á að halda ef blómið þeirra á að fá að blómstra en ekki bara að visna.

Það er mjög mikilvægt að við höldum þessu einkenni og það verði ekki of mikil miðstýring. Ég vil í því sambandi minna á ágæta umræðu sem varð hér í þingsal á dögunum um klasastefnu, mótun klasastefnu, umræðu sem átti sér stað um skýrslu hæstv. ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra um mótun klasastefnu þar sem allir voru á einu máli um þá sýn sem klasastefnan á að innleiða í íslenskt atvinnulíf og þá vistkerfishugsun sem þar er að finna. Og ef ég, herra forseti, leyfi mér að vitna í sjálfan mig í þeirri umræðu þá talaði ég þar um að góður klasi væri eins og falleg íslensk þúfa þar sem eru ótal lítil blóm sem lifa saman og næra hvert annað í vistkerfi þar sem þau eru ekki ógn hvert við annað heldur eru í samvinnu til að láta hvert annað lifa og dafna. Mér finnst þessi hugmynd nú, að leggja niður Nýsköpunarmiðstöð Íslands, ekki vera í anda þessarar klasastefnu, þvert á móti. Hún setur allt í uppnám. Ef við líkjum íslensku atvinnulífi við þúfu þar sem allt er fullt af einhverjum fallegum smáblómum sem þurfa að nærast og dafna hlið við hlið þá er þessi aðgerð líkust einhvers konar náttúruhamförum sem ógna þessari þúfu, eða kannski má líkja þessu við það þegar á þúfuna herjar skyndilega flokkur af kindum sem bíta allt.

Þetta er stórmál. Þetta snýst um það hvernig Íslendingar hafa hugsað sér að haga málum sínum í framtíðinni, hvernig þeir ætla að skjóta fleiri stoðum undir atvinnulíf sitt og hvernig þeir ætla að búa hér til heilbrigt, sterkt og gott atvinnulíf og mannlíf. Síðast en ekki síst hvernig Íslendingar ætla sér að halda áfram að vera kraftmikið samfélag sem byggist á því að hér sé vel menntað fólk sem kýs að búa hér og ala upp börn sín og lifa hér, lifa sínu lífi en ekki einhvers staðar í Evrópu eða annars staðar, sem er alls ekki sjálfgefið.

Ég veit að aðrir hv. þingmenn hafa líka gert þetta að umtalsefni en ég hlýt engu að síður í því sambandi að minna á umsögn Kristjáns Leóssonar um samkeppnishæfni Íslands í alþjóðlegum samanburði, sem verður að segjast eins og er að eru dálítið ískyggilegar tölur. Hann tilgreinir að Ísland hafi verið í 13. sæti á lista Global Innovation Index á árunum 2015–2017 en á árunum 2018–2020 hafi það setið í 20.–23. sæti. Þetta er eiginlega ekki ásættanlegt. Hann nefnir líka að meðal helstu styrkleika Íslands síðustu árin hafi verið fjöldi birtra vísindagreina og hlutfall rannsókna sem eru styrktar með erlendu fjármagni en meðal helstu veikleika hafi hins vegar verið lágt hlutfall há- og millitæknivarnings í innlendri framleiðslu og útflutningi og landið standi neðarlega varðandi fjölda útskrifaðra háskólanema úr vísinda- og tæknigreinum. Þarna hafi lítið þokast áfram. Þetta tengist allt saman vegna þess að umhverfi þar sem ýtt er undir nýsköpun og sísköpun og yfir höfuð bara sköpun, skapandi umhverfi, laðar til sín skapandi fólk sem aftur býr til verðmæti sem eru bæði þau verðmæti sem verða talin í krónum og aurum og andleg verðmæti og búa til fagurt mannlíf. Það að vega að starfsemi á borð við þá sem hefur farið fram í Nýsköpunarmiðstöð Íslands með óljósum fyrirætlunum um tæknisetur getur reynst ákaflega hættulegur leikur.

Örfá orð í lokin, bara um starfsfólkið. Meðal þess sem kemur fram í þessum hugsunarhætti um báknið og þessu ákalli um að báknið skuli burt — þó að það sé aldrei sagt berum orðum þá liggur einhvern veginn í þeirri hugsun önnur hugsun sem er sú að við þær stofnanir, sem eru þá tilgreindar innan þessa bákns, starfi fólk við einhvern óþarfa. Þetta séu óþörf störf sem sé í þjóðarhag að leggja niður. Það virðist einhvern veginn búa að baki þeim áformum að þetta fólk geti fundið sér eitthvað annað. Ég held að það sé líka mjög hættuleg hugsun vegna þess að það fólk sem starfar að opinberri þjónustu hér á landi, hvort sem það er (Forseti hringir.) í skólakerfi, heilbrigðiskerfi eða í sérhæfðri starfsemi á borð við þá sem innt er af hendi við Nýsköpunarmiðstöð, er okkur öllum nauðsyn.