151. löggjafarþing — 72. fundur,  23. mars 2021.

menntastefna 2020--2030.

278. mál
[19:34]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Menntastefnan fyrir árin 2020–2030 er uppfull af fallegum og fínum orðum. Nefndarálit meiri hlutans er það líka, og meira að segja enn fleiri orð en í stefnunni sjálfri. Ég hef heyrt öll þessi orð áður þegar rætt er um menntamál.

Herra forseti. Ekki misskilja mig þó að ég segi þetta, það er ákaflega mikilvægt að ræða menntamál og áherslur og hvað það er sem við viljum gera til að mennta unga fólkið okkar til þess að þau geti tekist á við áskoranir í lífinu og fái tækifæri til að mennta sig allt lífið. Hv. þingmaður talaði um það í ræðu sinni að það þyrfti fjármagn til að hrinda stefnunni í framkvæmd. Ég tek eftir því að talað er um árangursviðmið og að það eigi að setja þau upp, en það er hvergi talað um mat á árangri. Ég er svolítið hissa á því að nefndin skuli ekki hafa gert það að einni af breytingartillögu sinni að síðan þyrfti að meta árangurinn, hvort hann hefði náðst eftir einhvern ákveðinn tíma.

Varðandi fjármagnið, forseti, þá erum við nýbúin að ræða í fyrri umr. fjármálaáætlun fyrir árin 2022–2026, en þar stendur ekkert um að setja eigi fjármagn í metnaðarfulla menntastefnu. Það stendur heldur ekki, ef ég man rétt, í fjármálaáætluninni fyrir árið 2021–2025 sem þó er framtíðarsýn ríkisstjórnarinnar. Ég vil spyrja hv. þingmann hvort þetta sé ekki hálftilgangslaust eins og hún nefndi hér áðan, ef fjármagn fylgir ekki þessari fínu stefnu.