151. löggjafarþing — 72. fundur,  23. mars 2021.

menntastefna 2020--2030.

278. mál
[19:45]
Horfa

Frsm. allsh.- og menntmn. (Silja Dögg Gunnarsdóttir) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég get kannski svarað þessu sem svo að ég geri ráð fyrir því að hv. þm. Guðjón S. Brjánsson sé ánægður með að menntastefna sé komin fram. Ég skildi alla vega ræðu hans svoleiðis. Eins og ég sagði áðan þegar ég svaraði hv. þm. Oddnýju Harðardóttur er menntastefnan ákveðinn rammi og ákveðinn upptaktur að mjög mikilli vinnu sem á eftir að fara í við útfærslu á einstökum verkefnum sem tengjast ólíkum hópum, eins og t.d. fólki af erlendum uppruna. Þess vegna er nefndarálitið óvenju efnismikið og með mörgum punktum, mun fleiri punktum en menntastefna sjálf, vegna þess að nefndin er með því að benda á atriði sem hún telur að þurfi að horfa til þegar vinnunni verður svo haldið áfram.

Eins og ég sagði áðan í ræðu fengum við mjög margar umsagnir og marga gesti til nefndarinnar og hver einasti gestur hafði margt til málanna leggja sem bætti málið og opnaði augu okkar fyrir hlutum sem við höfðum ekki áttað okkur á. Þess vegna þótti okkur nauðsynlegt að telja þessi atriði upp, eins og um hæfnirammana, þroskaprófin og ýmislegt fleira sem passar ekki endilega inn í stefnuna sem slíka. Hún er bara leiðarljós í vinnunni. Stefna er aldrei ítarlegt plagg með upptalningu á öllu því sem þarf að gera. Það er annað skref í vinnunni. Eins og þingmaðurinn sagði þá nefndum við einmitt í nefndarálitinu fólk af erlendum uppruna og bættum því við ásamt fleiri hópum sem horfa þarf sérstaklega til.