151. löggjafarþing — 72. fundur,  23. mars 2021.

menntastefna 2020--2030.

278. mál
[19:49]
Horfa

Frsm. allsh.- og menntmn. (Silja Dögg Gunnarsdóttir) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hlutverk okkar þingmanna og þingsins er að bæta málin sem koma frá ráðherrum og þegar okkur þykir eitthvað ekki passa eða eitthvað vanta þá bendum við á það í nefndarálitum og með breytingartillögum og öðru sem við leggjum fram eftir umræðu í nefndum og í þingsal. Ég heyri að hv. þm. Guðjón S. Brjánsson er búinn að lesa nefndarálitið mjög vandlega og þar er einmitt ágætisumfjöllun um mikilvægi þessarar fimmtu stoðar menntakerfisins. Ég fékk sérstaka spurningu um hana hér á útleið frá hv. þingmanni og ég er sammála því að að sjálfsögðu eigum við að leggja áherslu á fimmtu stoðina sem er mjög mikilvæg í menntakerfinu og við þurfum vissulega að fara í frekari vinnu til að tryggja starfsemi og stöðu þeirra stofnana sem sinna sí- og endurmenntun.