151. löggjafarþing — 72. fundur,  23. mars 2021.

menntastefna 2020--2030.

278. mál
[19:54]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni svarið og ég tek undir það. Ég held reyndar að við þurfum að gera meira en skoða það, við þurfum hreinlega að ráðast í einhverjar aðgerðir. Mér finnst sorglegt að heyra drengina mína segja að skólinn sé bara fyrir stelpur, hann sé bara búinn til fyrir stelpur og að hann henti stelpum miklu betur, og sjá svo þá niðurstöðu að allt of margir drengir geta ekki lesið sér til gagns. Það er fullt sem mig langar að nefna og ég geri það þá bara í ræðu á eftir.

Ég sé hér í nefndarálitinu talað um að karlkynskennurum hafi fækkað. Ég ætla að hrósa hæstv. menntamálaráðherra sérstaklega fyrir að það hefur tekist að fjölga þeim sem sækja um að fara í kennaranámið, og það skiptir ofboðslega miklu máli. Einnig er fjallað um það í nefndarálitinu að við sjáum fram á ákveðna öldrun innan stéttarinnar. Þá spyr ég líka: Er ekki mikilvægt að við setjum það ekki bara sem markmið að fjölga þeim sem vilja sækja um í kennaranámið heldur að fjölga karlmönnum sem sækja um í kennaranámið og skila sér svo inn í skólana í kennslu?