151. löggjafarþing — 72. fundur,  23. mars 2021.

menntastefna 2020--2030.

278. mál
[20:23]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er kannski fyrst og fremst þetta: Við megum ekki dæma börn og nemendur úr leik of snemma eða öllu heldur að þeim líði ekki þannig að þau séu dæmd úr leik. Það er þessi líðan sem við erum svo oft að tala um, bæði drengja og stúlkna í þessu samhengi. Fyrst og fremst þarf auðvitað að vera fyrir hendi spennandi efni, efni við hæfi sem þeim þykir gaman að vinna með. Það er hægt að gera á svo ótal mörgu formi. Ég held að um leið og áhuginn kviknar á því sem þau eru að gera, hvað sem það er, geti færnin eflst. Eins og hv. þingmaður nefndi geta þau verið að smíða og þá er hægt að ræða við þau um orð í tengslum við það og hægt er að ná fram auknum orðaforða og samhengi hlutanna með því að virkja þau þar sem þau eru sterk fyrir. Það er fyrst og fremst það sem okkur ber að gera.

Það þarf hvorki mig né aðra þingmenn til að segja að kerfið hefur auðvitað ekki verið að mæta þessu og telur sig ekki hafa haft tök á því. Eins og kom fram í ræðu minni er kannski of oft of mikið álag og áreiti sem við náum ekki utan um og það stafar m.a. af því að nemendur hafa ekki næga ró, það er mikið áreiti alls staðar og allt um kring. Við þurfum sem kennarar að finna leiðir til þess að mæta þeim í öllu því áreiti sem á þeim dynur alla daga og það eru alls konar kröfur sem þau telja sig standa frammi fyrir. Allt frá því að þau eru pínulítil í leikskóla er alls konar áreiti sem verður til þess að þau ná ekki utan um sig sjálf. Það eru til margar góðar leiðir og ég veit um mjög marga starfsmenn og kennara skólanna sem eru að gera mjög góða hluti til þess að hjálpa þeim að öðlast ákveðna ró, til þess að ná utan sig, til þess að geta einbeitt sér að því að læra að lesa og það skiptir auðvitað miklu máli.