151. löggjafarþing — 72. fundur,  23. mars 2021.

menntastefna 2020--2030.

278. mál
[20:30]
Horfa

Willum Þór Þórsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni svarið. Þetta á bara að vera ábending um að þegar við erum að vinna með stefnur og boðum að við ætlum að láta stefnur tala saman og vinna þvert á ráðuneyti, og lýðheilsa og menntastefna eru mjög skýr dæmi um að það er nauðsynlegt, þá getum við bætt málin. Vissulega er komið inn á hluti sem snúa að lýðheilsu og læsi er einn þátturinn. En lýðheilsa, eins og hún er skilgreind hjá Alþjóðaheilbrigðisstofnuninni, snýr að andlegri, félagslegri og líkamlegri vellíðan. Síðan er það það sem lýðheilsustefna boðar, sem er að efla heilsulæsi, sem er líka afar mikilvægt. Lesskilningur er víðtækari en svo að hann snúist einvörðungu um það að lesa sér til gagns, við þurfum líka að skilja hugtök á mismunandi sviðum og getum tekið, eins og sagt er í lýðheilsustefnu, ábyrgð á eigin heilsu og höfum til þess þekkingu og stuðning.

Ég velti því fyrir mér hvernig svona samtal á sér stað á milli ráðuneyta þegar verið er að vinna með stefnumótandi mál. Það er margt til bóta í umhverfi okkar. Við erum að vinna meira með stefnur. Ég nefni lög um opinber fjármál sem dæmi, það er stefnumarkandi umhverfi sem við sköpum þar, og á fjölmörgum öðrum sviðum eins og þessu þegar við erum að tala um menntastefnu. En ég held að við þurfum að bæta okkur þegar við erum að boða að stefnur tali saman og vinna raunverulega með það.