151. löggjafarþing — 72. fundur,  23. mars 2021.

menntastefna 2020--2030.

278. mál
[20:32]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég tek undir það sem hv. þingmaður segir, það er mjög mikilvægt að við sjáum raunverulega betri árangur af því þegar verið er að móta stefnur að þær tali saman. Það á að vera einhvers konar samhæfing í ráðuneytunum, þ.e. í Stjórnarráðinu sem maður hefði talið að ætti að halda utan um þetta. Eins og hér var nefnt fara allar þessar stefnur í samráðsgátt þannig að það á að vera hægt að gera athugasemdir við þetta, bæði innan Stjórnarráðsins og áður en mál fara þangað o.s.frv. En það er einhvern veginn þannig að hver ráðherra er með sitt og það er kannski hluti af því að það er ekki borið undir aðra eða eitthvað slíkt. En það er sannarlega hægt að gera þessar athugasemdir þegar málin fara í samráðsgáttina áður en þau koma inn í þingið til að taka aðeins betur utan um þetta. Við höfum samþykkt hér nokkrar stefnur sem ég tel mjög mikilvægar, heilbrigðisstefnu, jafnréttisstefnu, svo að ég nefni dæmi, og auðvitað eiga þessar stefnur dálítið þverfaglega nálgun inn í allt það sem við erum að gera. Þó að við getum sagt að heilsuefling sé hið líkamlega, geðrækt sé hið andlega og forvarnir séu partur af heilsulæsi eða vellíðan allra þá tek ég undir það að heilsulæsi er kannski eitt af því sem við þurfum að leggja miklu meiri áherslu á í hinu daglega kennsluumhverfi. Heilsulæsi snýr ekki bara að því að hreyfa sig eða eitthvað slíkt, það snýr að svo mörgu öðru. En það er gjarnan tengt við eitthvað slíkt. Ég tek undir aðalgagnrýnina, sem mér heyrðist hv. þingmaður vera að bera hér fram, sem snýr að því að stefnur taki tillit til allra annarra stefna á milli ráðuneyta.