151. löggjafarþing — 72. fundur,  23. mars 2021.

menntastefna 2020--2030.

278. mál
[20:35]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M):

Herra forseti. Það kom fram í ræðu í fyrri umræðu um þetta mál hjá einum ágætum hv. þingmanni að sú menntastefna sem við ræðum hér sé byggð á grunni starfshóps sem var skipaður innan Framsóknarflokksins árið 2016. Eftir því sem maður les stefnuna sem slíka þá verður manni þetta kannski ljósara vegna þess að í sjálfu sér hefði ég haldið að hæstv. menntamálaráðherra hefði meiri metnað en svo að taka einhvern vísi að stjórnmálaályktun og búa til menntastefnu fyrir tíu ár. Það sem er kannski talandi dæmi um það hversu götótt stefnan er eins og hún er sett fram er þetta nefndarálit sem liggur hér fyrir sem er mjög mikið að vöxtum og líklega fleiri blaðsíður en stefnan sem slík. Og svo ég hrósi þessu nefndaráliti, sem ég á ekki þátt í, þá hefði margt sem þar er verið betur komið í stefnunni sjálfri.

Það sem vantar t.d. sárlega í þessa stefnu eru markmið, það eru engin markmið, ekki einu sinni svona yfirmarkmið. Það segir ekkert hér: Hvar ætlum við að vera stödd árið 2030? Það er ekkert um það. Sá sem hér stendur mun gera þá játningu hér og nú að hann hafði í huga að leggja fram breytingartillögur við þessa stefnu en sá sitt óvænna vegna þess að ef breytingartillögur hefðu komið fram hefði maður eiginlega þurft að skrifa þessa stefnu meira og minna upp og til þess er einfaldlega ekki tími. Það sem hægt er að gera í þessu er að benda á það sem vantar sárlegast í stefnuna í þeirri von að þegar vinnan heldur áfram verði áfram byggt utan á hana o.s.frv.

Það er eitt sem er mjög athyglisvert við þessa menntastefnu. Það er hvergi minnst á það einu orði að hér séu sjálfstætt starfandi skólar, hvert hlutverk þeirra eigi að vera, með hvaða hætti starfsemi þeirra getur tvinnast saman við starfsemi hins opinbera menntakerfis. Ég nefni bara sem dæmi sem eru náttúrlega augljós, Hjallastefnan, Versló, HR. Á stofnanir eða apparöt eins og þessi er ekki minnst í þessari stefnu. Mér finnst það mjög til baga vegna þess að ef við ætlum að búa okkur til heildstæða mynd af menntakerfinu þá þyrftum við að hafa þetta þarna með og einhverja línu um það hvernig menn sjá fyrir sér hlutverk þessara sjálfstæðu stofnana eða félaga í menntun þjóðarinnar. Og í sjálfu sér má segja að hér er heldur ekki minnst á sjálfstæða símenntun sem er til, Mímir og fleiri. Það er ekki minnst á það. Það er ekki minnst á að þeir aðilar eigi hlutverk, hvað það eigi að vera o.s.frv. Þetta er eitt.

Það er rétt sem fram kom í máli framsögumanns að það komu heilmargar umsagnir um þessa stefnu og mikið af gestum. Það er mikið talað um það í nefndarálitinu að mikill fengur hafi verið að því að fá þessa gesti o.s.frv., sem er nákvæmlega rétt, en það ratar í sjálfu sér ekkert af þeirra tillögum hér inn. Það sem maður saknar kannski sárast er að það er ekki minnst á að menntakerfið á Íslandi eins og það er í dag hentar ekki drengjum. Það er ekki minnst á það heldur hvort menn ætla og þá hvernig að reyna að ramma það inn á þeim tíu árum sem hér eru undir.

Herra forseti. Við erum alltaf að tala um það á þingi, og það er í sjálfu sér óþolandi, að það sé alveg skelfing að sérstaklega drengir skuli koma ólæsir út úr grunnskóla. Allir eru sammála um að það sé skelfilegt og hræðilegt. En við gerum ekkert í þessu, ekki nokkurn skapaðan hlut. Nú er ég ekki sérfræðingur á þessu sviði þannig að í sjálfu sér er ég ekki alveg viss um það hvernig eigi að vinna á þessu vandamáli. En enn þá hef ég ekki séð neinar tillögur, markvisst átak eða neitt slíkt til að reyna að leiðrétta þennan kúrs.

Á sínum tíma, ég held það hafi verið 1970 ef minnið bregst mér ekki, voru u.þ.b. 50% stúdenta drengir og stúlkur. Það er 30/70 núna, ef ég man rétt, og nemendur í háskólunum eru 70% stúlkur eða konur, en 30% eru karlar. Ég held, herra forseti, að bara þessi hlutföll eigi að sýna okkur að við þurfum að gera einhverjar ráðstafanir. Ég held að við verðum farin að tala hér innan örfárra ára um jafnrétti með öfugum formerkjum vegna þess að það er alveg ljóst að verði þetta eins eða þessi þróun haldi áfram þá mun það skapa vandamál. Það er alveg klárt.

Það er reyndar eitt sem er ekki heldur í þessari menntastefnu. Það er búið að ræða mjög mikið um nauðsyn þess að efla iðn- og tækninám og það er hverju orði sannara. Það þarf að gera það. Ég hefði talið að í stefnu eins og þessari ætti að vera eitthvert leiðarljós um það hvernig menntakerfið og atvinnulífið geta tekið saman höndum í því augnamiði að fanga betur sérstaklega þá sem falla úr námi vegna þess að bóknám hentar þeim ekki. Yfirleitt eða mjög oft eru það drengir, því miður. Það vantar ekki að tilraunir í þessa átt hafa verið gerðar. Það er t.d. ein í gangi núna austur í Fjarðabyggð og það er samvinna á milli álversins í Reyðarfirði og Verkmenntaskóla Austurlands í Neskaupstað. Það er að heyra að úr Verkmenntaskólanum í Neskaupstað komi afbragðsnemendur, mjög vel menntaðir iðnaðarmenn. Og mér er sagt, af fólki sem vinnur í þessum geira og lifir og hrærist í honum, að á sama hátt sé verkmenntaskólinn á Sauðárkróki, þ.e. Fjölbrautaskóli Norðurlands vestra, að útskrifa alveg fyrirtaks nemendur. Nú er ég ekki að taka þessa skóla tvo fram til að gera lítið úr einhverjum öðrum skólum, alls ekki, síður en svo. Það sem ég er einfaldlega að segja er að ef við höfum svona sprota eða greinar sem eru til fyrirmyndar þá eigum við að reyna að yfirfæra þá reynslu yfir á restina eins og við getum til þess að gera þessa nauðsynlegu kennslu eins markvissa og hægt er og eins árangursríka og hægt er.

Þá komum við kannski að því að fyrir nefndina kom hópur skólanemenda, afskaplega vel máli farin og rökvís börn, og þau sögðu okkur eiginlega til syndanna og það var ekki vanþörf á því. Þau spurðu: Af hverju lærum við ekki fjármálalæsi? Af hverju lærum við ekki að fylla út atvinnuumsókn? Af hverju fáum við starfskynningu á síðustu þremur vikum á síðasta skólaári í grunnskóla? Þetta eru allt saman alveg prýðisspurningar og maður spyr sjálfur: Af hverju? Það var gerð tilraun eða átak á sínum tíma, ég veit ekki hvort sú tilraun er í gangi enn þá, í einum grunnskóla í Reykjavík sem fór í samvinnu við Hellisheiðarvirkjun og grunnskólabörnum var boðið þangað og þau fengu að sjá vinnustaðinn, þau fengu að sjá starfsaðstöðuna og þau fengu að sjá launaseðil. Og síðast þegar ég vissi hafði komið út úr þessu samstarfi að 14 stúlkur fóru að læra rafvirkjun vegna þess að menn kappkostuðu það í þessu átaki eða kynningu að hafa bæði kynin með í för með þessum líka fína árangri. Við þurfum kannski að gera meira af því í báðar áttir. Hugsanlega þurfum við að vera með starfskynningu fyrir drengi sem eru á leið í bóknám um það hvað það er eftirsóknarvert að verða kennari, það er mjög hugsanlegt, eða hvað það er eftirsóknarvert að vera leikskólakennari og vinna með börnum. Kannski þurfum við að gera þetta, ég veit það ekki. En eitt er víst að við þurfum að gera eitthvað ákveðið í þessu máli.

Sú stefna sem hér er sett fram á að vera vegvísir, en er án þess að taka ákvarðanir, án þess að setja markmið. Það kom fram í máli framsögumanns áðan að þessi stefna væri upptaktur að mikilli vinnu. Það kann að vera rétt en ég spyr: Hvers vegna var þá ekki mikil vinna lögð í stefnuna sjálfa strax, meiri vinna en greinilega hefur verið lögð í hana? Í sjálfu sér meiðir það engan það sem hér er sagt en þetta er svona eins og stjórnmálaályktun; leitast skal við og stefnt skal að og eitthvað slíkt. En það er engin alvörustefna um það hvar við ætlum að vera á einhverju gefnu tímabili og hvernig við ætlum að komast þangað. Þess vegna nefndi ég áðan óháðu skólana. Þess vegna nefndi ég áðan samstarf skóla eða menntakerfis og atvinnugreina.

Fyrir nokkrum árum síðan kom ég í fyrirtæki sem rekur stærsta renniverkstæði á Íslandi og, herra forseti, fyrir þá sem ekki vita þá liggur svarið ekki uppi en þegar maður veit það er það algjörlega augljóst. Stærsta renniverkstæði á Íslandi er hjá Össuri, stoðtækjaframleiðandanum. Ég spurði ágæta konu sem ég hitti þar á þessum tíma hvað þau væru með marga nema í rennismíði. Hún sagði engan. Ég spurði: Af hverju? Vegna þess að enginn hefur beðið okkur um það, sagði hún. Við erum hér með fyrirtæki, talandi um samstarf milli menntageirans og atvinnulífsins, úrvalsfyrirtæki bara á þessu svæði, Össur, Marel. Ég hitti fyrir tveimur árum síðan forstjóra í stóru fyrirtæki sem vinnur á rafeindasviði. Hann er með margt ófaglært fólk í vinnu sem klárar sig ágætlega af í sjálfu sér. Hann sagði: Ég hefði viljað mennta þetta fólk. Ég hefði viljað að fyrirtækið mitt mætti vera meistari fyrir þetta fólk. Samkvæmt núgildandi lögum er það ekki hægt.

Því segi ég þetta enn einu sinni: Svona möguleikar eru til hvarvetna. Ég hef gert það nokkrum sinnum að hitta mjög góðan iðnrekanda í Hafnarfirði sem er búinn að reka sitt fyrirtæki með hagnaði, að ég held, mínus eitt ár, í 50 ár og er með mjög góða smiðju og skipaviðgerðir. Hann hefur sagt það við mig mörgum sinnum að honum finnist vanta sérstaklega eitt. Nú höfum við Íslendingar ekki útskrifað plötusmiði í líklega 30 ár og ekki mikið af járnsmiðum, ekki mikið af skipasmiðum, en þessi ágæti maður sem er með alla þessa reynslu sagði við mig: Það sem þarf að gera er að innræta fólki sem fer í þetta nám stolt af því námi sem það hefur valið. Og ég ætla að segja eitt enn. Fyrir nokkrum árum hitti ég forsvarsmenn menntamála hjá Samtökum atvinnulífsins og við vorum einmitt að ræða það, það er týpískt, við vorum að ræða það fyrir fimm, sex árum þetta sama vandamál, að sérstaklega drengir dyttu út úr námi, þeir væru ekki að skila sér í iðnnám fyrr en seint og um síðir o.s.frv., ef þeir gerðu það. Ég sagði við þetta ágæta fólk: Af hverju sýnið þið ekki ungu fólki, ungum stúlkum, hvað iðnaðarmaður vinnur sér inn mikla peninga á starfsævinni? Síðan hefur komið í ljós, og það var kannski vitað þá, ég veit það ekki, að ævitekjur iðnaðarmanns eru að meðaltali eða að jafnaði hærri en háskólamenntaðs manns.

Með þessu er ég ekki að mæla sérstaklega með því að við forsómum háskólamenntun, enda kom það fram á sínum tíma í fyrra lífi mínu þegar ég vann við það frá kl. 9–5 að koma Íslandi inn í Evrópusambandið en hætti því svo um fimmleytið, þegar hér kom sendinefnd frá Evrópusambandinu. Og hverju hafði hún mestar áhyggjur af á Íslandi? Menntunarstiginu. Það voru allir mjög hissa, menntunarstiginu á Íslandi. Þetta var fyrir um átta árum. Menn sögðu: Jú, þetta er einfalt. Íslendingar útskrifa færri doktora, færri mastera og færri með BA-gráður en mörg nágrannalönd. Mig minnir að á þessum tíma hafi menn dregið upp þá mynd að Ísland var að þessu leyti statt á sama stað og Portúgal og Grikkland, með mikilli virðingu fyrir þeim þjóðum báðum. En ég hef þá trú að í okkar markmiðum ætlum við ekki endilega að feta í þeirra fótspor heldur vera kannski meira á pari við það sem gerist hér nær okkur.

Það sem ég vildi segja er þetta: Þessi stefna, þetta plagg hérna, er eiginlega eins og glærusýning án mynda. Þetta er svona stikkorðabók sem ein og sér gerir ekki neitt. Ég hlakka náttúrlega rosalega til að sjá einhverja áætlun sem á að koma fram innan sex mánaða. Ég vona að það hilli undir það einhvern tímann að menn sjái og sýni og láti það uppskátt hvar þeir ætla að vera, hvar íslenskt menntakerfi á að vera og í hvaða standi að tíu árum liðnum. Hvað er endamarkið? Hvað er markmiðið?

Ég verð að segja eitt í lokin, herra forseti, af því að tíminn flýgur hér. Í menntastefnunni hefði ég talið að væri full ástæða til að fara sérstaklega yfir námsörðugleika, t.d. lesblindu. Ég hefði talið alveg fullkomlega æskilegt að eitthvað slíkt væri tekið fyrir og áætlun gerð um það hvernig við ætlum að aðstoða þau börn sem eiga við námsörðugleika að stríða, hvort sem það er lesblinda, einhverfa, ADHD o.s.frv. Það er gert hér í einni setningu eða eitthvað slíkt en ég hefði viljað sjá meira kjöt á þessu beini. Eins og ég sagði fyrr stóð ég ekki að þessu nefndaráliti og finnst þessi stefna eins og hún er hér meira umbúðir en innihald.