151. löggjafarþing — 72. fundur,  23. mars 2021.

menntastefna 2020--2030.

278. mál
[21:31]
Horfa

Guðmundur Andri Thorsson (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það kom fram hjá nefndinni að stefnt skyldi að og þörf væri á og brýnt væri. Við eflum bara læsi með einu móti: Með lestri. Börn læra lestur af því að lesa og af því að iðka lestur daglega, tiltekinn tíma á dag. Þegar börn hafa komist upp á lagið með að lesa eru þau alveg gríðarlega afkastamikil. Þau spæna í sig bækur með alveg óhugnanlegum hraða þegar þeim býður svo við að horfa. Þá þarf að mæta þeirri þörf með því að sjá til þess að til sé alveg endalaust úrval af bókum. Ég veit að íslenskir rithöfundar geta framleitt þær bækur í löngum bunum og ég veit að útgáfuhúsin geta búið þær bækur þannig úr garði að þær verði aðlaðandi. Það sem vantar hér er að opna skólana fyrir þessu. Við erum enn þá einhvern veginn föst í fyrirkomulagi sem Jónas frá Hriflu innleiddi. Hann hafði það þó fram yfir núverandi yfirvöld að hann gat sjálfur skrifað líflegar og skemmtilegar kennslubækur sem höfðu mikil áhrif á fólk. Við þurfum að opna leiðina á milli framleiðenda lestrarefnisins og viðtakenda lestrarefnisins sem eru börnin.