151. löggjafarþing — 72. fundur,  23. mars 2021.

menntastefna 2020--2030.

278. mál
[21:56]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (P) (andsvar):

Herra forseti. Ég verð nú kannski að byrja á því að nefna að ég er ekki heimsins mesti sérfræðingur í samsetningu kennarastéttarinnar eða áhrifum þeirrar samsetningar á stöðu nemenda. En ég held að í skólakerfinu, eins og annars staðar í samfélaginu, skipti máli að hópurinn sem þar er sé sem fjölbreyttastur. Á síðustu árum og áratugum hefur þróunin í skólakerfinu verið sú að kynjaskiptingin í kennarastéttinni hefur orðið miklu öfgakenndari, en það endurspeglar líka gildismat samfélagsins. Það endurspeglar að þessi störf eru ekki metin jafn verðmæt og ýmis önnur og þetta hangir yfirleitt saman við það að þessi stétt er kvennastétt, hún er líka með lægri laun. Það er kannski stóra vandamálið. Ef við förum aftur yfir í læsið þá eru ýmsar rannsóknir sem benda til þess að þessi munur á læsi drengja og stúlkna jafnist út þegar þau skríða inn á fullorðinsárin og sé ekki jafn mikill þegar þau eru um tvítugt. En það sem er hins vegar alveg skýrt er að karl með minni menntun fær hærri laun að meðaltali en kona með meiri menntun. Það eru þau neikvæðu áhrif sem við þurfum að hreinsa út úr skólakerfinu eins og alls staðar annars staðar í samfélaginu. Þar höfum við væntanlega þá lausn helsta (Forseti hringir.) sem Olga Margrét Cilia, varaþingmaður Pírata, hefur bent á, að brenna niður feðraveldið.(Forseti hringir.) Það er sennilega árangursríkast til að ná þessu.

(Forseti (GBr): Forseti minnir á tímamörkin knöppu.)