151. löggjafarþing — 72. fundur,  23. mars 2021.

menntastefna 2020--2030.

278. mál
[22:15]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni aftur fyrir andsvarið. Kannski að við byrjum á því síðasta sem hv. þingmaður kom inn á varðandi starfs- og iðnnámið og tækniframfarir. Ég tek alveg undir að það kostar auðvitað meira að kenna slíkt nám en bóknám þar sem hægt er að vera með fleiri nemendur í kennslustofu og krakkarnir lesa sjálfir bækurnar, en í hinu tilfellinu þurfa þeir aðgang að alls konar tækjum og tólum. Hv. þingmaður nefndi tækniframfarirnar sem við sjáum fram á og ákveðna byltingu hvað það varðar. Þar held ég reyndar að kunni að vera tækifæri til hagræðingar þegar kemur að tækniframförum í skólakerfinu. Þá get ég komið inn á fjarkennsluna en svo getur líka verið að tæknin sjálf leiði okkur til hagkvæmari lausnanna í menntakerfinu eins og hún gerir úti í atvinnulífinu og annars staðar.

Það er rétt, og ég nefndi það hér, að ég held að til lengri tíma litið þurfi laun kennara hækka og það er auðvitað hálfhjákátlegt að hér standi tvær konur og ræði um hvað menntakerfið ætti að kosta af því að við ætlum að fjölga körlum og með því muni launin hækka hjá kennurum. Það er auðvitað algerlega fáránlegt. En ég trúi því og mér fannst hv. þingmaður að einhverju leyti taka undir að það kynni að gerast. Ég sé ekki fyrir mér að við þurfum að auka í í fjármálaáætluninni sem við ræðum á morgun og hinn. Ég geri ráð fyrir því að það sé inni í þeim köflum og í rauninni erum við búin að ákveða þann ramma sem fjármálaráðherra hefur yfir að ráða. Ég geri ráð fyrir því að inni í því séu þær áherslur sem hæstv. menntamálaráðherra hefur sýnt um áætlanir sínar varðandi iðn- og tækninámið. Við sjáum töluverða fjölgun í því núna á síðustu misserum og ég tek undir með hv. þingmanni um mikilvægi þess að við höldum því á lofti.

Hinar pælingarnar mínar varðandi rekstrarformin og svo fleiri karla (Forseti hringir.) innan kennarastéttarinnar sem myndi svo leiða til launahækkunar: (Forseti hringir.) Ég átta mig alveg á því að stærsti hluti við rekstrarkostnað skóla er launakostnaður. (Forseti hringir.) Það er langstærsti liðurinn. Ég held að við þurfum að huga að auknum launum kennara til lengri tíma og það mun örugglega (Forseti hringir.) á einhverjum tímapunkti hafa áhrif á kostnað.