151. löggjafarþing — 72. fundur,  23. mars 2021.

menntastefna 2020--2030.

278. mál
[22:38]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (P) (andsvar):

Herra forseti. Mig langar aðeins að eiga orðastað við hv. þingmann vegna þess að hún er formaður velferðarnefndar ofan á allt annað og vék hér að mjög mikilvægum atriðum í menntastefnunni sem varða heilsu nemenda í skólakerfinu. Í nefndaráliti allsherjar- og menntamálanefndar stendur í D-lið, vellíðan í öndvegi, að auka þurfi áherslu á þjónustu sálfræðinga, náms- og starfsráðgjafa og félagsfræðinga innan veggja skólanna. Nú er t.d. mjög stutt síðan við samþykktum að fella sálfræðinga undir Sjúkratryggingar, að greiðsluþátttaka Sjúkratrygginga ætti að ná til þjónustu sálfræðinga, en því fylgdi ekkert fjármagn.

Mig langar að velta upp þeirri spurningu hvort hér sé á ferðinni jafn innantómt loforð, fyrirheit um þjónustu sem þegar á reynir kostar of mikið að veita. Þó að þjónusta sálfræðinga borgi sig margfalt þegar heildaráhrifin eru tekin saman kostar hún. Það þarf að borga þessu fólki laun. Það þarf að ráða það inn. Hefur hv. þingmaður í hlutverki sínu sem formaður velferðarnefndar einhvers staðar rekist á rými í fjármálaáætlun, þeirri sem verið er að endurflytja núna en var frumflutt síðasta haust, til að standa straum af kostnaði við þessa þjónustu sem við erum sammála um að sé mjög mikilvæg?