151. löggjafarþing — 72. fundur,  23. mars 2021.

menntastefna 2020--2030.

278. mál
[22:48]
Horfa

Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir (V):

Virðulegi forseti. Auðvitað er grundvallaratriði að til staðar sé skýr menntastefna sem sátt er um í samfélaginu og framfylgt er með kerfisbundnum hætti. Í þessari tillögu til þingsályktunar um menntastefnu fyrir árin 2020–2030 er ályktað að unnið skuli að því að efla menntun landsmanna allra til ársins 2030, sem er auðvitað af hinu góða. Almenn upptalning, vil ég leyfa mér að segja, í menntastefnunni er ágæt og ég er í hópi þeirra sem skrifa undir nefndarálit um hana, í grunninn vegna þess að ég styð að stefna eins og þessi sé unnin og lögð fram og að hún liggi fyrir. En mér finnst stefnan hins vegar full almenn fyrir minn smekk og hefði viljað sjá samhliða skýrari framsetningu um markmið, um leiðir, um árangur og mælingar á árangri og um endurmat, að það kæmi skýrar fram en raunin er í þeim almennu stefjum sem liggja fyrir. Um þessi atriði er ekkert fjallað í menntastefnunni sjálfri. Í fram kominni menntastefnu eru útlistaðar áherslur án þess að fyrir liggi með hvaða hætti stefnt sé að því að ná þeim fram. Til að koma á góðum og mikilvægum atriðum í stefnunni, eins og meiri samfellu í þjónustu við nemendur, aukinni viðurkenningu á störfum kennara, bættum starfsaðstæðum á leikskólastiginu, eflingu list- og tæknináms, aukinni og breyttri námsráðgjöf á öllum skólastigum, verður að grípa til einhverra aðgerða. Eitthvert samráð verður að eiga sér stað, einhverjum markmiðum hljóta að fylgja aukin fjárframlög.

En það segir ekkert um leiðirnar, það segir ekkert um með hvaða hætti framfylgja eigi þessum almennu stefjum, það vantar að fjalla um innleiðingu. Í nefndaráliti okkar er fjallað um að menntastefnunni sé ætlað að ramma inn áherslur sem settar verða í forgrunn í menntakerfinu næstu tíu árin. Þar er rakið að einstaka atriði og aðgerðir verði lagðar fram í innleiðingaráætlun. En mun eðlilegra hefði verið og farið betur á því ef þær hefðu verið lagðar fram samhliða þar sem fjallað hefði verið um hver forgangsröðunin væri, hver fókusinn væri innan hvers málaflokks fyrir sig, hvernig ætti að mæla árangur, hver væri eftirfylgni og hvert væri matið á árangri. Kostnaðarmat hefði verið mjög af hinu góða. Vel hefði farið á því að skilgreina ábyrgð ólíkra aðila. Öll þau atriði hefðu getað varpað ljósi á stefnuna sjálfa. Stefnan hefði orðið ljósari og skýrari, markmiðin og leiðirnar, með því að innleiðingaráætlun hefði verið rædd og unnin samhliða.

Mig langar til að nefna örfá atriði sérstaklega. Fyrst atriði sem rakið er í nefndarálitinu og varðar sjónarmið sem heyrðist í umfjöllun um málið, þ.e. að stefnan miðaðist fullmikið við leikskóla, grunnskóla og framhaldsskóla en í stefnunni hefði átt að fjalla um símenntun og endurmenntun og nám á því stigi. Þar vantar einmitt að forma áherslur og það er í mínum huga miður. Stóra atriðið sem mig langaði til að víkja að og hefur verið fjallað um í dag og í kvöld varðar læsi og lestur. Ég er í hópi þeirra sem setja spurningarmerki við þá nálgun í kennslu barna að leggja þunga áherslu á hraðann. Enn er þessi aðferð þungamiðjan í lestrarkennslu, vil ég leyfa mér að segja, þessi fókus á hraðann. Ég tek undir ræður í kvöld þar sem vikið hefur verið að því hversu mikilvægt sé að einblína a.m.k. jafn mikið á skilninginn og hraðann.

Ég er eiginlega á því, eftir að hafa átt þrjú börn á grunnskólastiginu, að líka verði að líta til námsefnis í þessu sambandi, gerð námsefnis og útgáfu. Þar breytast hlutirnir fullhægt. Þar held ég að við gætum gert betur sem samfélag með því að færa börnum bækur sem eru skemmtilegar og kitlandi og hafa meiri fókus á því að námsefnið sé endurnýjað mun oftar en verið hefur. Þannig sýnum við börnum þá virðingu sem þau eiga skilið í námi sínu. Ég vil taka undir umsögn Kennarasambandsins um málið sem fjallar um mikilvægt hlutverk Menntamálastofnunar í þessu samhengi. Í mínum huga hefði farið vel á því í stefnunni að fjalla skýrt um verkefni Menntamálastofnunar og tengsl stofnunarinnar við skólastarfið, að þar væri t.d. römmuð inn framtíðarsýn um námsmat og þróun þess en líka um námsefnisgerð á öllum skólastigum. Ég held að það hljóti að vera ansi veigamikið atriði í samhengi við að ætla að ná betri árangri varðandi lestur og læsi barna. Ekki svo að skilja að ég vilji hljóma með þeim hætti að staðan í þeim efnum sé endilega slæm í grunnskólum landsins en ég held að bókin hljóti að vera ákveðinn lykill að því að laða börnin að lestri. Ég vil í því sambandi líka taka undir það sem kemur fram í umsögn frá bókasafnaráði þar sem fram kemur að það sé miður að bókasöfnum hafi ekki verið gert hærra undir höfði í tillögunni. Það er alveg rétt að bókasafnanna er aðeins mjög stuttlega getið. Bókasöfnin gegna auðvitað mjög mikilvægu hlutverki í skólastarfi, bæði í skólastarfi barna en líka í formlegri og óformlegri endurmenntun fullorðinna. Ég er á því að bókasafnið, bæði gamla góða bókasafnið og hið stafræna, sé mikilvægur lykill að læsi barna og lykill að því að opna heim bókarinnar. Mér finnst miður að bókasafnsins sé varla getið í þessu samhengi.

Í kaflanum um jöfn tækifæri fyrir alla hefur vantað að forma skýrt hvernig við ætlum t.d. að stuðla að læsi og jöfnum tækifærum hjá nemendum af erlendum uppruna, þeim börnum sem eiga íslensku sem annað tungumál. Það er auðvitað ákveðin lykilspurning, grundvallarspurning, ekki síst þegar við höfum í huga hlutfall útlendinga í landinu. Ég hefði viljað sjá því gerð betri skil hvernig við ætlum að tryggja jöfn tækifæri, hvernig við ætlum að tryggja aðgengi þessara barna að tungumálinu, hinu íslenska tungumáli, í gegnum læsið og hvernig við ætlum að tryggja jöfn tækifæri barna að þessu leyti.

Í menntastefnunni er líka fjallað um fjölbreytt menntasamfélag, eins og þar segir, án þess að fjallað sé um sjálfstæða skóla berum orðum. Í umfjöllun um fjölbreytt menntasamfélag er ekki vikið að fjölbreytileikanum í námi eða skólum. Ekki er vikið að margbreytileika skólanna varðandi þessa stefnu eða í námi og ekki um rekstrarform. Fjallað er um sjálfstæða skóla í lögum. Þar eru þeir viðurkenndir. Það er auðvitað þekkt og vitað að slík starfsemi skapar tækifæri til ákveðinnar nýbreytni og fjölbreytni í skólastarfi og er mikilvæg og skemmtileg viðbót við opinbera skólakerfið. Þeir skólar eru líka hluti af menntastefnu til framtíðar. Víkja hefði mátt að þeim í stefnunni með afgerandi hætti.

Markmiðin, upptalningin sem ég vék að í byrjun, eru ágæt svo langt sem þau ná en eftir stendur að eftir er að forma stefnuna. Víkja þarf að því hvernig endurmat og endurskoðun einstakra liða á að vera innan stefnunnar. Ég held að mjög gott hefði verið að orða það alveg skýrt að á tímabilinu 2020–2030 færi fram með fyrir fram ákveðnum hætti mat og eftir atvikum endurskoðun á því hvernig til væri að takast.

Eins og ég vék að í byrjun hefði ég viljað sjá skýrari framsetningu, ekki bara upptalningu á markmiðum heldur hvaða leiðir eigi að fara í því sambandi, að hvaða árangri sé stefnt, að í innleiðingunni væri líka rými fyrir endurmat og eftir atvikum endurskoðun, vikið væri með skýrari hætti að nánari forgangsröðun og fókus innan hvers málaflokks fyrir sig og ábyrgð skilgreind með skýrum hætti. Þetta allt sem vantar hefði varpað ljósi á raunverulegt inntak stefnunnar. Stefnan verður auðvitað ekki ljóslifandi fyrr en hún er farin að raungerast. Það er galli að innleiðingaráætlun hafi ekki verið rædd og unnin samhliða. Með því hefði stefnan um þennan mikilvæga málaflokk orðið okkur öllum ljósari og samtalið um menntastefnu hefði verið til þess fallið að ná betri lendingu um það að hverju væri stefnt.