151. löggjafarþing — 72. fundur,  23. mars 2021.

menntastefna 2020--2030.

278. mál
[23:01]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P):

Forseti. Ég vil eyða nokkrum orðum í nokkur atriði menntastefnu, enda mikilvægt mál, til næstu ára og áratuga, alla vega áratugar hvað þessa stefnu varðar. Hér hefur verið vikið að vanda drengja í skólakerfinu sem er athyglisvert að skoða vel. Ef skoðaðar eru tölur frá Hagstofunni um fjölda brautskráðra nemenda eftir skólastigi, landsvæði, aldursflokki og kyni frá 1995–2019, ég ætla að vitna í samantekt frá Árna Gunnari Ásgeirssyni, þá sést að brautskráðum drengjum úr framhaldsskóla, háskóla, doktorsnámi og viðbótarnámi hefur fjölgað á þessum árum. Það er merkileg staðreynd til hliðar við ýmis annars konar vandamál sem eru vissulega til staðar en þrátt fyrir þau hefur brautskráðum drengjum af þessum skólastigum fjölgað. Ef tekið er tillit til fólksfjölgunar breytist þetta aðeins en það er mjög erfitt að gera greiningu á því vegna þess að t.d. eykst fjöldi íbúa með erlent ríkisfang mismikið, körlum fjölgar t.d. mun meira en konum og er mikið flökt þar innan. En að teknu tilliti til þess þá hefur brautskráningum úr framhaldsskóla í raun fækkað eftir hrun, sem er áhugavert. Það á bæði við um karla og konur, þó hafa færri karlar brautskráðst.

Tölurnar í þessu eru dálítið flóknari en þær líta út fyrir að vera við fyrstu sýn því að þó að brautskráðum körlum af þessum skólastigum hafi fjölgað hefur brautskráðum konum fjölgað miklu meira. Þá lítur samanburðurinn illa út fyrir karla þrátt fyrir að tölurnar segi að þeim gangi vel almennt séð, ef við tölum bara um fjölda brautskráninga af þessum skólastigum. Sagan er því ekki alveg öll sögð í þeirri umræðu sem hefur verið hérna. Það er vissulega vandamál hjá ákveðnum hópum drengja en heilt yfir hefur samt náðst árangur meðal þeirra. Þetta virðist vera mótsögn en þarf ekki að vera það. Það er einmitt það sem er merkilegt við þetta.

Ég hef lokið námi og er búinn að fara í gegnum menntakerfið nokkurn veginn tvisvar. Eftir að ég kláraði framhaldsskóla fór ég aftur á leikskóla sem leiðbeinandi, kenndi síðan sem leiðbeinandi í grunnskóla áður en ég fór í háskólanám og í doktorsnám þar sem ég lærði tölvunarfræði með sérstakri áherslu á námstölvutækni eða menntatölvutækni. Þar skrifaði ég nokkrar greinar um menntatækni, „learning analytics“, með leyfi forseta, þ.e. að greina þau gögn sem liggja á bak við þegar fólk er að læra.

Mér finnst dálítið áhugavert að skoða menntastefnuna hvað þetta varðar því að ég sé þar ekki þá þróun sem hefur verið í menntatölvutækni, að taka tillit til gagna sem geta orðið til þegar nemendur eru í námi, að læra og þeir skila árangri. Það býr til ákveðnar upplýsingar sem hægt væri að nota til að grípa inn í ef nemendum líður illa eða skila ekki verkefnum eða taka ekki þátt eða eitthvað því um líkt, býður upp á mun snemmtækari íhlutun. Verkefnið mitt t.d. snerist um að skoða fólk meðan það var að vinna verkefnin, hvort tölvukerfið gæti spáð fyrir um það áður en nemandinn skilaði verkefninu hvort hann myndi standast eða falla. Greiningin var mjög nákvæm þegar allt kom til alls. Það kom mér eiginlega á óvart hversu nákvæm hún var. Þar var aðalspábreytan í rauninni bara hversu mikinn þátt nemandinn tók í náminu, hversu oft hann mætti og las námsefnið eða það sem aðrir nemendur bættu við inn í umræðuna. Bara sú einfalda breyta, þessi þátttaka, sagði rosalega mikið til um hvernig nemendunum gekk síðan í náminu.

Hér hef ég oft nefnt þá þróun sem á sér stað og hægt væri að nýta betur, sem sagt gervigreind og menntatölvutækni, í umræðunni um stöðu drengja, hvernig sumir hópar eru vissulega í slæmri stöðu en almennt séð hafi menntakerfið verið að skila þeim árangri sem það gerir. Þegar verið er að tala um að breyta einhverju í menntakerfinu er svo erfitt að rökstyðja þær breytingar því að þrátt fyrir þá galla sem núverandi menntakerfi hefur, sem hefur áhrif á ákveðna hópa og þarf vissulega að laga, þá hafa orðið framfarir í því undanförnum árum og áratugum og í rauninni alltaf þegar allt kemur til alls. Er hægt að breyta menntakerfinu á þann hátt að það skili enn betri árangri? Það er spurning sem við þurfum alltaf að spyrja okkur. Þar kem ég niður á ákveðin grunnatriði sem þyrftu að vera í menntastefnu. Það varðar aðgang að þeim gögnum sem við, hið opinbera, hjálpum til við að búa til, aðgang að nýrri þekkingu. Þar er ákveðið vandamál, t.d. á háskólastigi hvort opinbert fjármagn skili sér í opinberri eign á rannsóknarniðurstöðum. Það eru ákveðnir veggir sem koma í veg fyrir að það fjármagn sem við leggjum saman til þekkingarsköpunar verði að sameiginlegri eign okkar. Það varðar opið aðgengi og akademískt frelsi sem er t.d. verið að leggja til, og nauðsynlega, í stjórnarskrá.

Við erum á áhugaverðum stað í menntakerfinu. Við erum í svo rosalega mikilli þróun og hraðri þróun sem samfélag út af tækninýjungum. Það hefur verið ákveðinn hægagangur, ef við getum orðað það þannig, bæði á þingi og í menntakerfinu, ákveðinn hægagangur kynslóðar, myndi ég segja. Það er vissulega erfitt að innleiða stöðugt nýja tækni, sérstaklega án þess að það séu rannsóknir á bak við sem rökstyðja þá innleiðingu á einn eða annan hátt. Það eru gríðarleg tækifæri í menntun í framtíðinni og við þurfum að taka betur tillit til þeirrar þróunar og þeirrar tækniþróunar sem getur aðstoðað okkur við að gera menntun betri fyrir alla og þá sérstaklega fyrir þá sem falla á milli og missa í rauninni af lestinni. Menntakerfið sem slíkt er ein stór lest og þú stígur í rauninni um borð í leikskóla. Ef þú heltist úr lestinni einhvers staðar þá heldur lestin bara áfram. Hún hefur gert það frá því að ég var í skóla. Það hefur verið reynt að innleiða betur einstaklingsmiðaða námskrá og það gengur upp og ofan og afleiðingarnar eru eins og þær eru af mörgum öðrum ástæðum. En við ættum tvímælalaust að grípa þau tækifæri sem tæknin býður upp á og gera betur en við höfum gert.