151. löggjafarþing — 73. fundur,  24. mars 2021.

opinber stuðningur við nýsköpun.

322. mál
[16:05]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegur forseti. Atvinnuveganefnd hefur gert jákvæðar og veigamiklar breytingar á málinu í góðri samvinnu við ráðuneytið og nefndina. Þar má nefna að skotið er styrkari stoðum undir samfelldar langtímabyggingarrannsóknir og þær tryggðar. Nýsköpunargátt er nýmæli, en hún veitir ráðgjöf og þjónustar allt landið. Hún er gjaldfrjáls og sinnir líka stuðningi við umsóknir. Lagaumhverfi við stafrænar smiðjur er styrkt og verkefnasjóðurinn er settur inn í lagatextann. Réttindi starfsfólks eru enn frekar skýrð og tryggð og að tveim árum liðnum mun hæstv. ráðherra skila skýrslu um hvernig hefur gengið, hver árangurinn hefur verið, hvernig hefur verið með styrkveitingar, hvernig þær hafa dreifst og hvernig starfsemi Tækniseturs hefur þróast. Við skulum öll leggjast á eitt og gera þetta mál að lögum og taka það til skoðunar að tveim árum liðnum og sjá hvernig til hefur tekist, en ég tel að það sé vel undirbúið eins og það liggur fyrir núna.