151. löggjafarþing — 73. fundur,  24. mars 2021.

opinber stuðningur við nýsköpun.

322. mál
[16:07]
Horfa

ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra (Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir) (S) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Ég er handviss um að málið og þær breytingar sem því fylgja séu nýsköpunarumhverfinu í heild til góðs, að þær leiði af sér að við römmum betur inn einstaka verkefni sem stofnunin sinnti. Við erum að forgangsraða betur framlagi hins opinbera til nýsköpunar. Við erum að stórauka stuðning til nýsköpunar í heild sinni og eflum hann enn frekar. Með stofnun Tækniseturs erum við til að mynda loksins að koma því á fót sem talað hefur verið um lengi og við finnum kraftinn sem fylgt hefur þeim áformum sem eru fyrir þinginu og við höfum farið af stað með, sérstaklega víða um landið. Það eru nánast óteljandi verkefni sem eru að fara af stað til að efla nýsköpun í heild sinni úti um allt land á forsendum hvers svæðis fyrir sig.