151. löggjafarþing — 73. fundur,  24. mars 2021.

menntastefna 2020--2030.

278. mál
[16:24]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Á næsta áratug verða ýmsar áskoranir fyrir menntakerfið sem ég held að menntastefnan nái ekki fyllilega yfir og er mögulega ekki endilega hægt að setja í menntastefnu því að samfélagið breytist hratt með tækniþróun og ýmsu öðru. Við þurfum að vera vel vakandi fyrir þeim breytingum sem eru handan við hornið, fylgjast vel með, grípa inn í og taka þátt ef svo ber undir.

Eins og ég kom að í ræðu í gær finnst mér t.d. vanta svið varðandi námsgreiningu sem gerist sjálfkrafa, t.d. nýtingu á gervigreind sem hægt er að vinna með og er t.d. stefna í fjármálaáætlun. Það væri áhugavert að sjá slíkt koma yfir í menntamálin.