151. löggjafarþing — 73. fundur,  24. mars 2021.

breytingar á ýmsum lögum tengdum málefnum sveitarfélaga.

478. mál
[16:29]
Horfa

Guðjón S. Brjánsson (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Við greiðum hér atkvæði um frumvarp sem snýr að sveitarfélögunum. Þau bera hitann og þungann af mikilvægustu grunn- og nærþjónustu við íbúa þessa lands og varða hag þeirra og velferð frá vöggu til grafar. Í yfirstandandi faraldri hafa mörg sveitarfélög lent í hremmingum og þurft að grípa til ráðstafana sem teflt hafa mikilvægri þjónustu í tvísýnu. Sveitarfélög hafa í þeim erfiðu aðstæðum lýst með háværum hætti eftir frumkvæði og aðkomu ríkisvaldsins og hverju skrefi í þá átt er fagnað. Mikilvægt er að við þessa lagasetningu sé í öllum atriðum gætt jafnræðis gagnvart einstaklingum og fyrirtækjum, gegnsæi ríki og samræming sé höfð í huga milli sveitarfélaga um framkvæmd laganna. Í trausti þess styður þingflokkur Samfylkingarinnar þetta frumvarp.