151. löggjafarþing — 73. fundur,  24. mars 2021.

fjármálaáætlun 2022--2026.

627. mál
[16:34]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir tillögu til þingsályktunar um fjármálaáætlun fyrir árin 2022–2026, sem dreift hefur verið á þskj. 1084. Þessi fjórða fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar er óvenjuleg enda fara alþingiskosningar fram í september. Af þeim sökum fellur tímabil áætlunarinnar alfarið á nýtt kjörtímabil og næsta fjárlagafrumvarp verður lagt fram af hálfu nýrrar ríkisstjórnar. Þá hefur Alþingi nýlokið ítarlegri umfjöllun um stefnumörkun opinberra fjármála, það gerðist hér undir lok síðasta árs, auk umfjöllunar um stefnu, markmið og aðgerðaáætlanir allra málefnasviða. Við vinnslu þessarar áætlunar voru því ekki gerðar efnisbreytingar á grunnsviðsmynd gildandi fjármálaáætlunar heldur tekur uppfærslan aðeins til veigameiri breytinga á tekju- og útgjaldahlið. Þessi áætlun hverfist því fyrst og fremst um hagstjórnarlegt hlutverk hins opinbera en það hlutverk er tvíþætt: Annars vegar að styðja hagkerfið og tryggja viðspyrnu þess þar til við sjáum augljósan bata á vinnumarkaði og hins vegar að efla fjárhagsstöðu ríkissjóðs að nýju samsvarandi vaxandi styrk efnahagslífsins og stefna að stöðvun skuldasöfnunar hins opinbera á eðlilegum hraða. Hér er gengið út frá því að við náum því markmiði að stöðva hækkun skuldahlutfallanna sem hlutfall af landsframleiðslu árið 2025.

Auk þess að leggja stóru línurnar fram veginn segir áætlunin góða sögu. Í þeirri sögu eru tvenn skilaboð: Réttar ráðstafanir skiluðu árangri og staðan er betri en flestir þorðu að vona. Það er langt í frá sjálfgefið mál og það munar reyndar miklu og er afar fróðlegt að skoða spár frá því snemma á síðasta ári og sjá svo uppgjör fyrir árið 2020. Þar er himinn og haf á milli og útlitið hefur sömuleiðis batnað verulega. Eftir fjármálahrunið 2008 hvarf tiltrú á efnahagsstefnuna. Við vorum snemma komin í gjaldeyrishöft og ríkissjóður greip þá hratt til aðhaldsaðgerða og heimili og fyrirtæki gripu í handbremsuna. Við teljum að aðstæður nú bjóði upp á töluvert aðra nálgun. Við höfum lagt miklu meiri áherslu á að nýta sterka umgjörð efnahagsmála til að styðja við efnahagslífið. Stuðningurinn hefur bæði skilað sér beint til heimila og fyrirtækja í formi fjárframlaga en einnig höfum við með þessu verulega dregið úr þeirri óvissu sem heimili og fyrirtæki standa frammi fyrir. Hegðun heimila og fyrirtækja endurspeglast í þessu og er verulega frábrugðin þeirri sem átti sér stað eftir fjármálahrunið.

Skoðum, svo að dæmi sé tekið, neyslu og fjárfestingu í fyrra og berum saman við það sem gerðist hér árið 2009. Í almennri umræðu er gjarnan fyrst og fremst horft á landsframleiðsluna en ef við grípum út úr landsframleiðslutölunum neyslu og fjárfestingu, sem ganga undir heitinu þjóðarútgjöld, sjáum við mjög merkilegar tölur. Neysla og fjárfesting árið 2009 dróst saman um rúm 19%, samanborið við 1,9% í fyrra — 19% á móti 1,9%. Þessi tala segir heilmikið um það hvernig heimilin meta stöðu sína og hvernig atvinnustarfsemin horfir til framtíðar. Það að innlend eftirspurn dróst aðeins lítillega saman í fyrra, þrátt fyrir að ráðstafanir í sóttvörnum kæmu í veg fyrir stóran hluta neyslu heimilanna, er í sjálfu sér afrek. Það er allt til marks um að heimili og fyrirtæki treysti á stefnuna og trúi því að við taki bjartari tímar þegar þessu tímabundna ástandi lýkur.

Við stöndum frammi fyrir gríðarlegum halla á ríkissjóði. Þótt hallinn í fyrra hafi verið minni en við gerðum ráð fyrir fram eftir árinu var hann verulegur og það sem meira er, það stefnir í mjög mikinn halla á þessu ári. Þetta er sögulega gríðarlegur halli á ríkisfjármálunum. En höfum í huga í því sambandi að hallinn sem er að myndast er ekki tapað fé. Honum er varið til að standa með heimilum og fyrirtækjum, styðja þau í gegnum erfiða tíma. Innspýting ríkisfjármálanna hefur þannig stutt við innlenda framleiðslu og þjónustu, haldið lífsneistanum í fyrirtækjum og byggt undir umsvif til framtíðar. Tekjur heimilanna reyndust vegna þessara aðgerða mun stöðugri en í síðustu kreppu. Þessi staða hefur ekki orðið til í tómarúmi. Það má fullyrða að í viðbrögðum stjórnvalda felist einhverjar umfangsmestu efnahagsaðgerðir sögunnar. Ráðist hefur verið í gjaldfresti, skattalækkanir og ívilnanir, tugmilljarða stuðning með beinum hætti og ýmsum óbeinum hætti. Úrræðin eru nú alls á annan tug og hafa beinst jafnt að heimilum og fyrirtækjum. Við höfum stutt við þá sem urðu fyrir tekjumissi með úrræðum á borð við hlutabætur, greiðslu launa á uppsagnarfresti, lengra tímabili tekjutengdra atvinnuleysisbóta og greiðslu launa í sóttkví. Við höfum beitt skattkerfinu með frestun skattgreiðslna, auknum endurgreiðslum virðisaukaskatts og tímabundinni lækkun tryggingagjalds. Auk þess höfum við hækkað frítekjumörk og lækkuðum tekjuskatt einstaklinga mest fyrir þá tekjulægstu. Síðasta skrefið var stigið um nýliðin áramót. Og má ég bara koma því að hér að við stóðum við það sem við sögðum varðandi tekjuskattinn þrátt fyrir að vera stödd í einhverri mestu efnahagslægð sem við höfum upplifað. Það var staðið við það og skiptir miklu. Fyrirtækjum í vanda hefur verið gefinn kostur á greiðsluskjóli með nýju lagaúrræði og hér hef ég ekki enn talið upp lánaúrræðin sem hafa verið fjölbreytt, stuðningslán sem við munum næst framlengja endurgreiðsluskilmála fyrir og svo öll þessi beinu framlög í formi tekjufallsstyrkja sem áttu við vegna ársins í fyrra, viðspyrnustyrkina sem eru núna lokunarstyrkir sem aftur eru komnir inn í myndina. Það er í gildi enn allt um lokunarstyrkina í lögum og félagsmálaráðherra hefur útfært tillögur um ráðningarstyrki sem skipta miklu vegna atvinnuástandsins. Með ráðningarstyrkjunum fá rekstraraðilar beinan fjárhagslegan stuðning til að bæta við sig starfsfólki á ný.

Ef horft er lengra fram í tímann endurspeglar fjármálaáætlunin stefnumörkun síðustu fjögurra ára í raun og veru. Í stjórnarsáttmálanum var mörkuð stefna um verulega eflingu velferðarkerfa, stórsókn í innviðafjárfestingum, lækkun skatta og mjög metnaðarfull markmið í umhverfismálum. Svigrúm í krafti öflugs hagvaxtarskeiðs var þannig nýtt til að efna loforð um aukna velferð og kaupmátt samhliða verulegri lækkun skulda ríkisins. Afraksturinn sést víða. Má þar nefna styrkingu heilbrigðisþjónustunnar, eflingu menntakerfisins, aukna áherslu á nýsköpun og rannsóknir, átak í samgöngumálum, eflingu ýmissa löggæslu- og landhelgisgæsluverkefna, aukin framlög til byggðamála, uppbyggingu innviða á ferðamannastöðum, aðgerðir á sviði umhverfis- og loftslagsmála og auknar endurgreiðslur vegna framleiðslu kvikmynda á Íslandi. Afraksturinn er sem sagt víða.

Í tíð núverandi ríkisstjórnar hafa rammasett útgjöld málefnasviða verið aukin um meira en 80 milljarða að raunvirði. Við erum sem sagt að skila beint til styrkingar á opinberri þjónustu, til að fjárfesta til framtíðar í innviðum, þessu hagvaxtarskeiði sem nú hikar, en við höldum okkar striki þar sem við trúum því að við séum að glíma við tímabundið ástand. Þessi aukning á rammasettum útgjöldum er að raungildi 12%. Hlutfallslega hafa framlög til nýsköpunar, rannsókna og þekkingargreina, sem við virðumst flest sammála um að séu grundvöllur að því að skapa verðmæt störf í framtíðinni, vaxið um ríflega 70% í tíð þessarar ríkisstjórnar.

Hæstv. forseti. Ég vík máli mínu nú að einstökum breytingum frá gildandi fjármálaáætlun. Nýlegar tölur Hagstofunnar sýna að umsvif í hagkerfinu voru meiri en vonir stóðu til og reyndar mun meiri, en sú þróun á þátt í að hagvöxtur verður minni í ár en áður var spáð. Hagvöxtur er jú alltaf borinn saman við árið í fyrra. Þar sem samdrátturinn var ekki jafn mikill og áður var gert ráð fyrir verður hagvöxtur í ár ívið minni en áður var spáð. En á móti kemur að Hagstofan spáir meiri vexti nú yfir allt tímabil áætlunarinnar en spáð var í október. Sú mun bjartari mynd sem nú birtist í hagtölum og spám er mikið fagnaðarefni. Spáin er enn drifin áfram af fjölgun ferðamanna og er gert ráð fyrir 720.000 ferðamönnum í ár sem er 50% fjölgun frá árinu 2020. Þetta eru þó tæplega 200.000 færri ferðamenn en áður hafði verið gert ráð fyrir. Á árunum 2023–2024 er hins vegar gert ráð fyrir álíka fjölda ferðamanna og kom til Íslands árið 2019.

Afkomu- og skuldahorfur hins opinbera árin 2023–2025 hafa batnað frá eldri áætlun í takt við bjartari efnahagshorfur. Afkomubatinn nemur allt að 1,5% af vergri landsframleiðslu á síðari hluta tímabilsins, sem er umtalsverð breyting. Auknar tekjur drífa þróunina áfram að mestu þó að fjórðung batans megi rekja til hækkunar á nafnvirði vergrar landsframleiðslu í uppfærðri þjóðhagsspá. Þannig vegur hallinn minna sem hlutfall af vergri landsframleiðslu eftir því sem landsframleiðslan stækkar. Þá gefa undirliggjandi horfur til kynna að skuldastaða verði betri en síðasta fjármálaáætlun gerir ráð fyrir. Skuldir eru áætlaðar lægri í upphafi tímabilsins og vaxa sömuleiðis hægar. Gert er ráð fyrir að skuldir ríkissjóðs sem hlutfall af vergri landsframleiðslu verði 46,5% árið 2025 eða 5 prósentustigum lægri en í gildandi áætlun. Vegna bættrar undirliggjandi afkomu verður einnig hægt að draga verulega úr afkomubætandi ráðstöfunum sem sýndar voru í gildandi áætlun fyrir árin 2023–2025.

Bráðabirgðauppgjörið gefur til kynna minni hallarekstur á síðasta ári en áður var gert ráð fyrir, eins og ég hef hér komið inn á, en í því er gert ráð fyrir að hallarekstur ríkissjóðs hafi numið um 200 milljörðum kr. eða 6,6% af vergri landsframleiðslu árið 2020. Þar munar 70 milljörðum, borið saman við það sem við vorum að vinna með hér undir lok síðasta árs. Og hvað er að baki þessari bættu afkomu? Það skýrist fyrst og fremst af þróttmeira efnahagslífi sem byggir m.a. á aðgerðum stjórnvalda. Þar vil ég vísa bæði til beinna og sértækra aðgerða á efnahagssviðinu en ekkert síður á sviði sóttvarna sem hefur verið grundvöllur að sterkri einkaneyslu á síðasta ári og fram á þetta ár. Á gjaldahliðinni skýrist bjartari mynd einkum af lægri nýtingu á Covid-úrræðum. Þó lítur út fyrir að hluti þessara útgjalda muni raungerast á árinu 2021 í stað 2020.

Á yfirstandandi ári er afkoma ríkissjóðs áætluð neikvæð um 10,2% af vergri landsframleiðslu sem er í meginatriðum í samræmi við fjárlög og fjármálaáætlun sem í gildi er, en við verðum að gæta okkar á því að venjast ekki þessum svakalegu tölum. 10% af landsframleiðslu í halla á ríkissjóði er svakaleg tala og verulega mikið áhyggjuefni í venjulegu ári ef ekkert væri í kortunum um að úr myndi rætast. En við leyfum þessum mikla halla að myndast til að styðja myndarlega við. Við sögðum strax í upphafi að við vildum frekar gera meira en minna og höfðum trú á því að það myndi skila sér og tölurnar sem við sjáum núna fyrir árið 2020 styðja okkur í því að það hafi einmitt gert það. Við fórum fram úr öllum spám varðandi stöðu heimilanna og samdrátt í hagkerfinu. Það er gleðiefni og við erum að segja núna með nýrri áætlun að við viljum halda áfram á þessari sömu braut með þessar sömu áherslur. En ekki bara það heldur getum við meira að segja gert betur.

Fjármálaáætlunin gerir ráð fyrir að afkoma ríkissjóðs fari smám saman batnandi frá þeirri erfiðu stöðu sem ég er hér að lýsa og að lokum verði jákvæðum frumjöfnuði náð árið 2025. Árin 2022–2025 verða útgjöld ríkissjóðs að jafnaði um 10 milljörðum hærri en í gildandi fjármálaáætlun en tekjuáætlun er sömuleiðis um 25 milljörðum hærri á ári. Þannig batnar afkoma ríkissjóðs um tæplega hálft prósent af vergri landsframleiðslu á ári á tímabilinu og árið 2026 er gert ráð fyrir að afkoma ríkissjóðs verði í heildina neikvæð sem nemur 59 milljörðum kr. eða um 1,4% af vergri landsframleiðslu.

Virðulegi forseti. Ég mun ekki komast yfir alla þá þætti sem varða stöðu efnahagsmála en ég vil að lokum koma því að að hér erum við með áætlun fyrir framan okkur sem sýnir, svo að ekki verður um villst, að við höfum á traustum grunni að byggja. Við getum sótt frekari árangur. Hagstjórnin undanfarin ár gaf okkur viðspyrnu og við höfum nýtt hana vel. Við fórum fram undir merkjum verndar, varna og viðspyrnu fyrir ári en fram undan er tími sóknar.