151. löggjafarþing — 73. fundur,  24. mars 2021.

fjármálaáætlun 2022--2026.

627. mál
[16:52]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. fjármálaráðherra fyrir framsöguna. Það kemur fram í þessari nýju fjármálaáætlun að því er spáð að afkoma verði betri og minni skuldasöfnun o.s.frv. Þrátt fyrir þessi jákvæðu teikn af hálfu ríkisstjórnarinnar, a.m.k. að hennar mati, verður ekki séð fram á að atvinnuleysi verði lægra á tímabilinu, samanber spár um atvinnuleysi í fyrri fjármálaáætlunum. Þetta er að sjálfsögðu áhyggjuefni og það er alveg ljóst að þessi áætlun, frú forseti, blæs ekki þeim þúsundum Íslendinga sem eru atvinnulausir von í brjóst. Til samanburðar má geta þess að í Bandaríkjunum er búið að setja 1,8 milljónir íslenskra kr. á hvern einasta Bandaríkjamann í aðgerðir til þess m.a. að fjölga störfum en hér er búið að setja, að því er mér telst til, um 540.000 kr. á hvern Íslending. Hér er því ríkisstjórnin að skera við nögl í raun og veru.

Ég spyr hæstv. ráðherra: Með hvaða hætti ætlar ríkisstjórnin að ná niður þessu gríðarlega atvinnuleysi sem er mjög mikið áhyggjuefni? Við erum að tala um að það verði um 4,5% í lok áætlunarinnar sem er allt of hátt og þetta kostar þjóðina gríðarlegar upphæðir, svo að ekki sé talað um andlega þáttinn í þessu öllu saman. Ég get ekki séð að fjármálaáætlun sendi þau skilaboð til þessa fólks að það eigi að reyna að fjölga störfum. Það er ekki verið að nota ríkisfjármálin, að mínum dómi, til að fjölga störfum í gegnum einkaframtakið. Þá spyr maður sig: Er þetta allt á réttri leið eins og hæstv. ráðherra gat hér um þegar við erum að horfa á þessar gríðarlegu atvinnuleysistölur? Ef hæstv. ráðherra gæti farið betur yfir það með hvaða hætti ríkisstjórnin sér fyrir sér að ná þessu alvarlega atvinnuleysi niður.