151. löggjafarþing — 73. fundur,  24. mars 2021.

fjármálaáætlun 2022--2026.

627. mál
[19:35]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Í fjármálaáætluninni kemur fram að ný hagspá er bjartari en fyrri áætlun byggði á. Sýnir áætlunin fram á minni hallarekstur, minni skuldasöfnun, minni þörf fyrir afkomubætandi ráðstafanir og niðurskurð. Afkomubætandi ráðstafanir hafa ekki verið útfærðar til fulls en líklegt er að þetta verði á endanum aðhaldsaðgerðir eða skattahækkanir eða hvort tveggja. Hvað heldur hv. þingmaður að verði gert og hverjum verður sendur reikningurinn? Verða það ekki þeir sem verst hafa það eins og vanalega? Það virðist vera eins og Sjálfstæðisflokkurinn neiti að horfast í augu við að það er ákveðinn hópur hér sem lifir langt undir fátæktarmörkum. Það virðist gleymast að bæta kjör hans og það virðist líka vera þannig að þegar skorið er niður bitni það helst á þessum hópi. Ég spyr hv. þingmann: Er hann sammála því að hafa þetta svona? Hvers vegna í ósköpunum getið þið ekki hjálpað þessum hópi? Eins og hæstv. fjármálaráðherra hefur margoft bent á er þetta mjög fámennur hópur, hann segir það hvað eftir annað, en einhvern veginn getið þið aldrei fundið peninga til að hjálpa þessum hópi. Hvers vegna í ósköpunum ekki? Þrátt fyrir alla þá útgjaldaaukningu sem verið hefur vegna Covid virðist alltaf þurfa að skilja einhvern hóp eftir. Hvers vegna er þessi ótrúlega tregða við að taka á þessu og sjá til þess að enginn sé skilinn eftir?