151. löggjafarþing — 73. fundur,  24. mars 2021.

fjármálaáætlun 2022--2026.

627. mál
[19:56]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Það er mjög gott að hv. þingmaður vísaði til reglugerðar sem Evrópusambandið birti í dag. Þeim skilaboðum hefur verið komið mjög skýrt á framfæri við Evrópusambandið að þetta þyki okkur engin vinnubrögð, hafandi verið í samstarfi við Evrópusambandið sem aðildarríki að EES-samningnum. Sjálf var ég í samskiptum við Ursulu von der Leyen og fékk þau skýru svör að þessar nýju reglur um útflutningshömlur á bóluefni myndu ekki hafa áhrif á afhendingu bóluefna til Íslands frá aðildarríkjum ESB í samræmi við þá samninga sem við höfum gert. En við gerum hins vegar ráð fyrir að reglugerðinni verði breytt til samræmis við þessi skýru skilaboð, og höfum komið þeim sjónarmiðum á framfæri, í samræmi við EES-samninginn. Ég tek bara undir með hv. þingmanni að það er náttúrlega alveg stórfurðulegt að fá slík skilaboð um þessa reglugerð.

Hv. þingmaður spyr um sparnaðinn. Við erum með þá stöðu að afkoma frá því í desember hefur tekið töluverðum bata og því má segja að þegar við horfum á það sem heitir í fjármálaáætluninni afkomubætandi ráðstafanir þá er það auðvitað sett fram í þeirri óvissu sem við erum stödd í um endanlegar efnahagslegar afleiðingar af faraldrinum. En af minni hálfu er það algjörlega skýrt að ég lít ekki á það sem vöxt á bákninu, þær viðbætur sem við höfum lagt inn í heilbrigðiskerfið sem hefur verið forgangsmál kjósenda ár eftir ár, kosningar eftir kosningar. Ég lít ekki á það sem vöxt á bákninu að við höfum ákveðið að styrkja menntakerfið, auka stuðning við rannsóknir og nýsköpun, styrkja hið félagslega velferðarkerfi. Það er ekki bákn. (Gripið fram í.) Það snýst um að vera samfélag. Ég held hins vegar að það séu tækifæri til hagræðingar hjá hinu opinbera. Eitt af því sem við höfum ákveðið að ráðast í (Forseti hringir.) er til að mynda að draga úr kostnaði með því að nýta tæknina í auknum mæli og við erum þegar farin að sjá merki þess (Forseti hringir.) hvað aukin nýting stafrænnar tækni er að skila miklum sparnaði hjá hinu opinbera.