151. löggjafarþing — 73. fundur,  24. mars 2021.

fjármálaáætlun 2022--2026.

627. mál
[20:28]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegur forseti. Við erum að ræða fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar fram til ársins 2026. Ég spurði hæstv. fjármálaráðherra um skýringar á því hvers vegna í ósköpunum kæmu hvergi fram í þessari fjármálaáætlun orðin fátækt og að útrýma fátækt, hvað þá að sárafátækt verði útrýmt. Á Íslandi býr ákveðinn hópur í sárafátækt, sem betur fer ekki stór hópur en allt of stór, og í honum eru börn. Það er mér gjörsamlega óskiljanlegt ef það er virkilega stefna þessarar ríkisstjórnar, ef hún heldur áfram og vinnur kosningarnar, að halda því áfram alveg fram til 2026 að ræða það ekki að útrýma fátækt á Íslandi. Samkvæmt því sem spáð er hérna um hækkun til eldri borgara og öryrkja er bara stefnt að rétt rúmlega 2% hækkun, sem er nærri því helmingi minna en áætlaðar launahækkanir á sama tímabili.

Ég spyr hæstv. forsætisráðherra Katrínu Jakobsdóttur: Vissi hún af því að þetta væri svona, að ekki væri verið að taka á þessum vanda? Hver er þá skýringin á því? Hvers vegna í ósköpunum er þessi hópur skilinn eftir? Við verðum að átta okkur á því að núna í Covid er þetta hópurinn sem lokast strax inni. Margt af þessu fólki er með undirliggjandi sjúkdóma, fólk sem þarf þá að fara að panta vörur í gegnum netið, sem er dýrt. Og þetta er fólkið sem hefur núna í lok mánaðar ekki efni á því að gera þetta. Þess vegna er þetta hópurinn sem þarf á hjálp að halda. Ég vona heitt og innilega að ekki sé búið að afskrifa þennan hóp, að ekkert eigi að gera fyrir hann alveg fram til ársins 2026.