151. löggjafarþing — 73. fundur,  24. mars 2021.

fjármálaáætlun 2022--2026.

627. mál
[20:43]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf):

Herra forseti. Ríkisstjórn Framsóknarflokks, Vinstri grænna og Sjálfstæðisflokks sýnir fádæma metnaðarleysi þegar sex mánuðir eru eftir af kjörtímabilinu og færa okkur gamlar fréttir í fjármálaáætlun næstu fimm ára. Gamlar fréttir sem miðast við stöðu mála í fyrra við upphaf þings. Enn skýrari merki ójöfnuðar í íslensku samfélagi hafa komið fram, enn skýrari en síðasta haust vegna mesta atvinnuleysis sem við höfum nokkru sinni kynnst. Elli- og örorkulífeyrir hækkar heldur ekki í takt við lægstu laun og þannig er fjölmennum hópum samfélagsins, atvinnuleitendum, öldruðum, veikum og börnum þeirra haldið í fátæktargildru. Eina uppfærsla ríkisstjórnarinnar er ekki vegna bættra kjara heldur vegna fjölgunar í þessum hópi. 70 milljarðarnir sem renna í málefnaflokk hæstv. ráðherra eru vegna fjölgunar, eru vegna fleiri verkefna. Þessi stefna ríkisstjórnarinnar til næstu fimm ára miðast við stöðuna fyrir hálfu ári. Hvað erum við að tala um? Jú, ef lífeyrir hefði hækkað í samræmi við launavísitölu væri hann ekki rúmar 250.000 kr. heldur nærri 300.000. Ef frítekjumark á örorkulífeyri hefði ekki verið fryst í krónutölu árið 2009 ætti það með réttu að vera nánast tvöfalt hærra í dag.

Herra forseti. Mögulega þykir hæstv. félags- og barnamálaráðherra þetta ekki skipta miklu máli á tímum heimsfaraldurs en það skiptir öllu máli að stjórnvöld geri allt til að minnka ójöfnuð í íslensku samfélagi, ójöfnuð sem, herra forseti, kemur í veg fyrir hagvöxt af því að jöfnuður í ríkjum eykur hagvöxt. Því miður hafa stjórnarflokkarnir greitt atkvæði gegn þeim tillögum okkar að reyna að tryggja jöfnuð eins og frekast er unnt.

Því vil ég spyrja, herra forseti, hvort hæstv. félags- og barnamálaráðherra hafi ekki áhyggjur af þeim ójöfnuði sem birtist meira og meira í samfélaginu í dag. (Forseti hringir.) Ég vil biðja hæstv. ráðherra um að tala ekki um heildartölu í málaflokkum heldur staðreyndir varðandi fólkið í landinu.