151. löggjafarþing — 73. fundur,  24. mars 2021.

fjármálaáætlun 2022--2026.

627. mál
[20:46]
Horfa

félags- og barnamálaráðherra (Ásmundur Einar Daðason) (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir. Við þurfum ávallt að vera vakandi yfir því og setja það í algjöran forgang að jafna kjör í landinu. Sá sem hér stendur hefur ávallt talað fyrir því og félagsmálaráðuneytið í tíð þessarar ríkisstjórnar hefur stigið mikilvæg skref í því, bæði í samstarfi við þingið, í samstarfi við verkalýðshreyfinguna, lífskjarasamninginn, ég nefni aðgerðir til að mynda í húsnæðismálum sem lúta að hlutdeildarlánum til þess að aðstoða ungt og tekjulágt fólk til að komast í eigið húsnæði, ég nefni aðgerðir sem við höfum ráðist í í skattamálum sem miða allar að því að létta skattbyrði af þeim sem lægstar hafa tekjurnar. Allt eru þetta aðgerðir sem voru unnar í tengslum við lífskjarasamninginn. Ég nefni líka fjölgun almennra íbúða sem heldur áfram á þessu kjörtímabili þannig að allt hefur þetta miðað að því sama. En ef hv. þingmaður er að reyna að fiska eftir því að nú komi félagsmálaráðherra upp og segi: Nú erum við búin að ná hinu fullkomna samfélagi, nú eru allir jafnir, þá er það ekki rétt. Verkefninu er ekki lokið. Við höfum stigið mikilvæg skref en verkefninu er ekki lokið. Grunnurinn að því að við getum haldið áfram að auka fjárfestingu í fólki í gegnum félagsmálaráðuneytið er sá að okkur takist að ná niður atvinnuleysinu. Það er mjög erfitt að skipuleggja þær aðgerðir í miðjum heimsfaraldri þegar stærsta atvinnugreinin er í algerri lokun. Það mun verða verkefni næstu ára að auka atvinnu vegna þess að þá mun skapast svigrúm í ríkisfjármálunum til framtíðar. Ég sagði það líka hér í upphafi að við erum auðvitað að ræða þetta plagg á miklum óvissutímum. Fréttirnar breytast dag frá degi og við erum að gera áætlanir og þær breytast dag frá degi vegna þess að það hefur enginn stjórn á þessari veiru.