151. löggjafarþing — 73. fundur,  24. mars 2021.

fjármálaáætlun 2022--2026.

627. mál
[20:48]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf):

Herra forseti. Já, hlutirnir breytast dag frá degi. Ef atvinnuleysi snarminnkar vegna betri tíðar þurfum við ekki að hafa áhyggjur af því að við séum að greiða of mikið út af atvinnuleysisbótum vegna þess að þá er þetta fólk farið í vinnu. Þá þurfum við ekki að hafa áhyggjur af því að við séum búin að skapa svigrúm umfram það sem þörf er á. Það verður aldrei glatað fé. Þetta snýst um það að fella ekki tillögur Samfylkingarinnar um lengri rétt til atvinnuleysisbóta, að fella ekki tillögu Samfylkingarinnar um að námsmenn eigi á þessum fordæmalausu tímum líka rétt á atvinnuleysisbótum, að fella ekki tillögur Samfylkingarinnar um lengingu á tekjutengda tímabili atvinnuleysisbóta.

Ég vil spyrja hæstv. ráðherra út í orð Kára Stefánssonar í Kastljósþætti kvöldsins þar sem hann segir merki um að starfsmenn af erlendum uppruna sem misstu vinnuna vegna faraldurs séu að koma hingað til lands vegna réttinda sinna á þessum tíma vegna þess hvernig umhverfinu er háttað. Þeir sem eru af erlendum uppruna þurfa að sækja um heimild til að fara utan lands í atvinnuleit og getur það verið að hámarki í þrjá mánuði. Ef þú færð ekki þá heimild þá þarftu að koma heim og tilkynna rafrænt með íslenskri IP-tölu að þú sért áfram atvinnulaus og í atvinnuleit. Vegna þessara orða Kára Stefánssonar um að það séu merki um að smit berist m.a. með þessum hópum vil ég spyrja hvort það komi til greina að auðvelda þessu fólki lífið. Það hefur jú borgað sinn hlut inn í tryggingakerfið, atvinnuleysistryggingakerfið, og maður veltir fyrir sér hvort við ættum kannski að bregðast við þessu ef þetta er vandamál sem er að birtast okkur núna.