Bráðabirgðaútgáfa.

151. löggjafarþing — 73. fundur,  24. mars 2021.

fjármálaáætlun 2022--2026.

627. mál
[20:53]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P):

Forseti. Ég ætla að halda aðeins áfram með það sem var að klárast. Þetta er áhugaverð tillaga sem er verið að vinna með, að skapa störf, 7.000 ný störf, klára rétt fyrir kosningar. Vandamálið er að fjármagnið dugar ekki í sex mánuði fyrir 7.000 manns miðað við þær tölur sem verið er að tala um. Ég fatta ekki hvernig það gengur upp ef maður notar einfalda deilingu og margföldun og skemmtilegheit.

Mig langar til að spyrja um annað. Nú erum við að fjalla um fjármálaáætlun þar sem stjórnvöld leggja fram stefnu sína og lögð eru fram ákveðin viðmið. Við ætlum að ná þessum árangri með því að nota almannafé í það sem við teljum vera okkar góðu verkefni í stefnu stjórnvalda. Það er t.d. aukastuðningur við tekjulága foreldra. Þar á viðmiðið árið 2021 að vera 7,5%, þ.e. hlutfall undir 60% af miðgildi ráðstöfunartekna á mann fyrir barnafjölskyldur. Staðan 2019 er 8%, viðmið 2021 á að vera komið niður í 7,5%, frábært. En við fáum ekki uppfærða stefnu málefnasviða. Við höfum ekki hugmynd um hver staðan er 2020. Við sjáum ekkert hvort verið er að fara í áttina að þessum markmiðum, hvort stefna stjórnvalda er að raungerast eða ekki. Af hverju ekki?

Hæstv. ráðherra talar um tölulegt samhengi, 70 milljarða í viðbót í málefnasvið hans. Ef við tökum tillit til verðbólgu þá minnkar sú tala um 10 milljarða eða svo, það er svona gróft skot. En við verðum alltaf að spyrja okkur: Af hverju er þessi aukning? Hverju skilar hún okkur í markmiðunum, í árangri á notkun á almannafé? Mest af því sem ég hef séð, langstærsti hluti þessarar upphæðar, er kerfislægur vöxtur og hæstv. ráðherra getur ekki farið að monta sig af 60 milljörðum aukalega í þessa málefnaflokka bara út af kerfislægum vexti. (Forseti hringir.) Ráðherrann mætti endilega sundurliða þetta tölulega samhengi betur fyrir okkur.