Bráðabirgðaútgáfa.

151. löggjafarþing — 73. fundur,  24. mars 2021.

fjármálaáætlun 2022--2026.

627. mál
[20:55]
Horfa

félags- og barnamálaráðherra (Ásmundur Einar Daðason) (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þetta og tek undir með honum varðandi þessa málaflokka, sérstaklega þá sem í daglegu tali kallast mjúku málaflokkarnir, eins og félagsmál, heilbrigðismál, menntamál. Við mættum leggja miklu meiri hagrænar mælistikur á þau mál en við höfum verið að gera, ekki bara út frá því að ná þeim markmiðum sem við setjum okkur varðandi það sem hv. þingmaður nefndi, varðandi tekjulága o.s.frv., heldur líka að skoða hvern og einn einstakling og sjá hvernig getum við nýtt þessi kerfi okkar til þess að byggja upp einstaklingana og hugsa það út frá tekjuformi til lengri tíma litið. Við gerðum það í fyrsta skipti í vinnu við málefni barna þar sem við fórum að hugsa hvernig við gætum fjárfest í einstaklingnum og hverju hann myndi skila til lengri tíma litið ef okkur tækist að draga úr líkum á því að hann lenti í félagslega kerfinu síðar meir. Við höfum nákvæmlega sömu nálgun núna á málefni fanga. Þannig að ég tek undir þessa gagnrýni hv. þingmanns og tek hana jafn mikið til mín og aðrir. Mér hefur fundist fjármálaráðuneytið og fjármálahugsunin sem við erum með ekki taka nægilegt mið af því að horfa á þessi mannlegu gildi og setja mælistikur á þau.

Þegar kemur að þeim upphæðum sem ég nefndi áðan þá er það alveg hárrétt að inni í þeim er að hluta til eða verulegu leyti kerfislægur vöxtur, en þarna inni eru líka verkefni, mér gefst bara ekki tími til að rekja það allt í fimm mínútna ræðu. Við erum búin að lengja fæðingarorlofið sem dæmi. Þessi ríkisstjórn hefur hækkað greiðslur í fæðingarorlofi. Það hefur aukist á hverju einasta ári frá 2016 og svo til 2022, ef ekki verður skorið niður, um 10 milljarða á hverju einasta ári sem renna úr sjóðum almennings til barnafjölskyldna í þessu landi til að styðja betur við þær á fyrstu mánuðum í lífi hvers barns. Það er alveg hárrétt að inni í þessu er að hluta til kerfislægur vöxtur. (Forseti hringir.) En það breytir því ekki að þau málefnasvið sem heyra undir mig hafa fengið auknar fjárveitingar á þessu kjörtímabili, bæði til nýrra verkefna, en að sjálfsögðu er líka inni í því kerfislægur vöxtur.