Bráðabirgðaútgáfa.

151. löggjafarþing — 73. fundur,  24. mars 2021.

fjármálaáætlun 2022--2026.

627. mál
[20:58]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P):

Virðulegur forseti. Ráðherra getur alveg talið þetta upp á fimm mínútum. Það fóru 2,9 milljarðar í lækkun á krónu á móti krónu, það var 1,1 milljarður sem fór í eingreiðsluna núna af því að ekki er búið að laga kerfisbreytingarnar sem fara átti í á málefnasviði öryrkja. Það var samþætting þjónustu barna upp á 1,9 milljarða og svo eru barnabæturnar og fæðingarorlofið, sem var talið upp hérna áðan. Ég er búinn með 25 sekúndur, það er alveg hægt að gera þetta á fimm mínútum. Já, þessar mælistikur þurfa að vera, en það er nokkuð sem hæstv. ráðherra ber ábyrgð á á sínu málefnasviði, ekki fjármálaráðuneytið eða einhverjir aðrir. Í staðinn fyrir að koma hingað og segja 60 milljarðar, eða eins og hæstv. ráðherra sagði; 70 milljarðar, sem er núvirt u.þ.b. 10 milljörðum lægra, gæti hann talið þetta upp á aðeins gagnsærri hátt fyrir okkur til þess að við fáum betri heildarmynd af þeim málefnasviðum sem hæstv. ráðherra ber ábyrgð á.

Ég hef þó nokkrar áhyggjur af málflutningi hæstv. ráðherra. Tökum t.d. fæðingarorlofið. Við greiðum það sjálf í gegnum tryggingagjaldið (Gripið fram í.) — einmitt, þannig að það er ekki endilega hægt að tala um að við séum að auka fjármagn í fæðingarorlofsgreiðslur af því að við erum væntanlega líka að biðja fólk um að borga aukalega í tryggingagjaldið því að sá sjóður á að standa undir sér í gegnum það gjald. Það eru svona atriði sem ég hef áhyggjur af varðandi stefnu stjórnvalda. Hvar eru mælistikurnar á markmiðin sem stjórnvöld segjast ætla að ná? Hver eru markmiðin og munum við ná þeim eða ekki? Af því að málefnasviðin eru ekki uppfærð fáum við ekki sjá stöðuna 2020 og þá höfum við ekki hugmynd um hvort við munum ná markmiðunum eða ekki með notkun á almannafé eins og á að gera samkvæmt lögum um opinber fjármál.