Bráðabirgðaútgáfa.

151. löggjafarþing — 73. fundur,  24. mars 2021.

fjármálaáætlun 2022--2026.

627. mál
[21:00]
Horfa

félags- og barnamálaráðherra (Ásmundur Einar Daðason) (F):

Virðulegi forseti. Af því að hv. þingmaður nefndi fæðingarorlofið sérstaklega þá er það þannig varðandi þá málaflokka sem tryggingagjaldinu er ætlað að fjármagna að við verjum miklu hærri fjárhæðum til þeirra málaflokka. (Gripið fram í.) Þetta er ekkert „sirka“, hv. þingmaður taldi 10 milljarða áðan og tönnlaðist á þeim. Ég held við séum að tala um yfir 100 milljarða sem ríkissjóður er búinn að setja í heildina til fólksins (Gripið fram í.) í landinu. Við skulum hafa það hugfast af hverju það er. Það er vegna þess að ríkisstjórnin hefur á þessum tímum forgangsraðað fólki. Hún forgangsraðar líka fyrirtækjum með því að hækka ekki tryggingagjaldið á móti. Þá tekur ríkissjóður á sig þær fjárhæðir sem því nemur, (Gripið fram í.) tugi milljarða til þess að fleyta til fólks og fyrirtækja í landinu. Það er vegna þess sem ríkisstjórnin forgangsraðar með þessum hætti. Það er forgangsröðun ríkisstjórnarinnar að taka ákvörðun um að nýta kerfin okkar til að styðja við fólkið, bæði í gegnum fæðingarorlofskerfið á fyrstu mánuðum í lífi hvers barns en líka atvinnuleysistryggingakerfið. Hvernig haldið þið að umræðan hefði verið hér í þingsal ef ríkisstjórnin hefði komið og boðað að nú skyldi tryggingagjaldið hækkað til þess að standa undir hærri atvinnuleysisbótum? Ég hef aldrei heyrt hv. þingmann mæla gegn því að atvinnuleysisbætur væru hækkaðar.

Síðan vil ég segja um töluleg gögn sem lúta að þáttum sem hér eru undir, að ég tek undir með hv. þingmanni og ég sagði það. Ég tek á mig þá gagnrýni hv. þingmanns. Mér finnst við ekki beita hagrænum gildum nægjanlega, ekki bara út frá því hvaða fjármuni á núvirði við setjum í málefni heldur líka hvað er raunverulega fjárfesting til framtíðar í þessu kerfi og hvað ekki, hvað getur sparað okkur seinna meir (Forseti hringir.) í krónum og aurum. Við höfum verið að stíga skref í þá veruna, stór skref, og ég myndi vilja stíga stærri skref í þá veruna á næstunni.