151. löggjafarþing — 73. fundur,  24. mars 2021.

fjármálaáætlun 2022--2026.

627. mál
[21:10]
Horfa

félags- og barnamálaráðherra (Ásmundur Einar Daðason) (F):

Virðulegi forseti. Fyrst örsnöggt varðandi það að fjármálaáætlun sem við ræðum núna hafi ekki tekið nægilega miklum breytingum. Ég held að ef hún hefði tekið mjög miklum breytingum hefði verið veruleg hætta á því, bara svo við tölum íslensku, að menn hefðu farið í alls konar innihaldslausan kosningaflaum í fjármálaáætlun. Það held ég að hefði ekki verið vænlegt til vinsælda eða til umræðna í þingsal. Það stafar líka að einhverju leyti af því að staðan breytist gríðarlega hratt viku frá viku, frá mánuði til mánaðar. Við erum ekki á þeim stað að geta áttað okkur nákvæmlega á því hvernig næsta ár verður, svo það sé sagt. Ég held að það hafi sjaldan gerst þegar vormánuðir eru á næsta leiti að við höfum ekki vitað hvort það verður ferðaþjónusta í sumar eða ekki. Við erum að velta því fyrir okkur. Þetta er staðreyndin og við þessar aðstæður er erfitt að gera áætlanir.

Varðandi það að fella tillögur umhugsunarlaust og samvinnu og annað slíkt þá höfum við nú farið í gegnum stóra kerfisbreytingu sem lýtur að málefnum barna sem allir þingflokkar hafa komið að, öll ráðuneyti, með gríðarlega mikilli samvinnu. Slík samvinna, jafn góð og hún er, tekur oft gríðarlega langan tíma. Það er bara staðreynd. Það er oft og tíðum þannig að mörg þeirra mála sem við höfum komið með sem lúta að atvinnumálum eru eðlilega samhljóma því sem komið hefur frá stjórnarandstöðu og við getum leikið okkur með það fram og til baka. En það er líka oft þannig að mörg þeirra mála sem komið hafa hér inn hafa ekki hlotið þann undirbúning sem þurft hefði, ekki bara í samráði við þingflokka heldur í samráði við hagsmunaaðila. Það hefur e.t.v. ekki verið hægt að fara með þau í samráðsgátt. Oft og tíðum hafa þessi mál ekki getað farið í yfirlestur í forsætisráðuneyti og fjármálaráðuneyti með sama hætti af því að við höfum verið að dæla málum inn á gríðarlegum hraða til að reyna að bregðast við mjög skrýtnum aðstæðum. Þar eru mín mál ekki undanskilin og hef ég hlotið gagnrýni fyrir í þingsal, sem ég hef bara viðurkennt, af því að það er vandinn þegar við erum að reyna að hlaupa mjög hratt. Þá verða oft mistök. Stundum hefur þurft að leiðrétta þau í þinginu en stundum hefur líka þurft að leiðrétta eftir á með sérstökum lagafrumvörpum. (Forseti hringir.) Það er því miður raunin þegar við erum í svona skrýtnum aðstæðum eins og verið hafa hér síðasta árið.