151. löggjafarþing — 73. fundur,  24. mars 2021.

fjármálaáætlun 2022--2026.

627. mál
[21:17]
Horfa

Anna Kolbrún Árnadóttir (M):

Hæstv. forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra kærlega fyrir svarið. Sterk sjálfsmynd einstaklings hefur áhrif á breytni hans. Það er því mikilvægt að leggja grunninn snemma á lífsleiðinni með því að styðja við börn og ungmenni til að skapa sem jöfnust tækifæri til þroska, færni og sjálfsbjargar. Það verður að leggja alla áherslu á að svo geti orðið. Mér dettur í hug líðan drengja og svo börn og ungmenni af erlendum uppruna. Þetta snýst um hið félagslega að miklu leyti. Nú er verið að gera átak í málefnum barna og ég fagna því þó að ég viti auðvitað að ýmsar hindranir séu í veginum, sérstaklega hvað varðar fjármagnshliðina, það hafa alla vega sveitarfélögin sagt okkur og jafnvel þeir sem eiga að veita þjónustuna.

En að þeim sem ekki eru börn og ungmenni. Hvernig ætlar hæstv. ráðherra að grípa þá sem eru eldri? Er inni í myndinni að hækka bótagreiðslur, gera átak í því að styrkja sjálfsmynd þeirra eldri með sambærilegum hætti og ráðherra er að gera í málefnum barna? Hefur ráðherra gert plan um hvernig hann ætlar að skapa tækifæri svo fólk með skerta starfsgetu geti lagt sitt af mörkum? Gæti það verið ein leið að sá sem metinn er með 55% örorku geti unnið 45% starf án þess að það skerði örorkubætur? Ég gæti haldið áfram en ég held að það séu komnar nokkuð margar spurningar.