151. löggjafarþing — 73. fundur,  24. mars 2021.

fjármálaáætlun 2022--2026.

627. mál
[21:18]
Horfa

félags- og barnamálaráðherra (Ásmundur Einar Daðason) (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir. Við höfðum í hyggju að reyna að koma í gegn stórum kerfisbreytingum í málefni sem lýtur að starfsgetu fólks og auknum hvata þar. Ég hef líka sagt það hér að það urðu mér vonbrigði að við skyldum ekki ná því með þeim hætti sem við lögðum upp með. Við urðum að hægja verulega á þeirri vegferð og síðan skall á heimsfaraldur og við náðum einfaldlega ekki að finna lausn á því máli samhliða öðrum verkefnum.

Ég tek hins vegar undir með hv. þingmanni um mikilvægi þessa. Við höfum þó verið að reyna að gera breytingar í kerfinu með þeim hætti að við séum að — ég ætla ekki að segja „þrengja“ skilyrðin, en við höfum verið að auka það sem fer í endurhæfingarlífeyri og það sem fer þar í gegn þannig að fólk fari ekki strax á örorkubætur vegna þess að það er einfaldlega þannig að samfélagið á ekki að viðurkenna þetta. Það eru skref sem eru svolítið í þá veruna sem við erum að stefna núna varðandi þá sem eru búnir að vera atvinnulausir mjög lengi vegna þess að þar er veruleg hætta á því að jafnvel ungir einstaklingar fari á örorku. Þar erum við líka að stíga skref og greiða það mesta fjármagn sem þekkst hefur í sögu þjóðarinnar í því að skapa störf fyrir þann hóp vegna þess að það er svo mikil hætta á að þessir einstaklingar falli út af vinnumarkaði og endi síðan á örorku.

Ég er mjög spenntur að sjá hvernig það reynist og hvernig sveitarfélögin koma inn í það verkefni. Ég tek undir með hv. þingmanni um að það þarf að fara í sambærilega vinnu gagnvart þessum hópi og við höfum gert í málefnum barna. En það er einfaldlega þannig í litlu stjórnkerfi (Forseti hringir.) og þegar heimsfaraldur skellur á líka að maður nær ekki að halda alveg eins mörgum boltum á lofti og maður hefði kosið. (Forseti hringir.) En ég tek undir vangaveltur hv. þingmanns og athugasemdir.