151. löggjafarþing — 73. fundur,  24. mars 2021.

fjármálaáætlun 2022--2026.

627. mál
[21:21]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegur forseti. Við ræðum hér fjármálaáætlun til 2026. Mig langar að spyrja hæstv. félags- og barnamálaráðherra spurningar sem ég hef spurt bæði fjármálaráðherra og hæstv. forsætisráðherra. Það er staðreynd að í þessari fjármálaáætlun, sem hann sagði að hann væri stoltur af, ef ég heyrði rétt, er fátækt ekki nefnd, hvað þá sárafátækt eða að útrýma þeim ófögnuði sem er okkur til háborinnar skammar að sé enn til staðar hér á landi. Við leiðréttum að vísu á sínum tíma bætur vegna búseturskerðinga, sem var auðvitað hið besta mál, þannig að þeir bótaþegar fá 10% lægra en lægstu eftirlaun auk þess sem þar var aftur sett á króna á móti krónu skerðing.

Ég spyr hæstv. félagsmálaráðherra hvort honum finnist ekki vera kominn tími til að taka bæði þessi 10% í burtu og krónu á móti krónu skerðingarnar vegna þess að þessar breytingar, breytt kerfi, kosta meira en að leiðrétta þetta. Það væri sparnaður fyrir ríkið að taka þetta til baka.

Síðan langar mig að spyrja ráðherra í sambandi við námsmenn, en þeir vinna með námi og borga í Atvinnuleysistryggingasjóð: Hvernig stendur á því að þeir fá ekki atvinnuleysisbætur á móti? Er ekki bara verið að gera eignaupptöku í fjármunum sem þeir eru búnir að borga í þennan sjóð? Og síðast en ekki síst eru það hlutdeildarlánin vegna þess að þau virðast hafa klúðrast algerlega. Ég fæ ábendingar um það að fólk sem er á mjög lágum launum og er að finna sér íbúðir getur ekki keypt þær vegna þess að íbúðirnar eru svo dýrar, þakið á því sem það má kaupa er svo lágt að það dugir ekki fyrir þeim íbúðum sem eru á markaðnum og ef einhverjar íbúðir finnast þá eru allir að berjast um þær. Þannig að þetta gengur ekki upp. Það verður að hafa meira svigrúm í hlutdeildarlánunum.