151. löggjafarþing — 73. fundur,  24. mars 2021.

fjármálaáætlun 2022--2026.

627. mál
[21:23]
Horfa

félags- og barnamálaráðherra (Ásmundur Einar Daðason) (F):

Virðulegi forseti. Þær voru allmargar spurningarnar sem hv. þingmaður var með. Fyrst varðandi fátækt og sárafátækt. Við höfum núna í þessum heimsfaraldri sett til að mynda sérstakt fjármagn til tekjulágra heimila, í íþrótta- og tómstundastyrki aukalega fyrir tekjulág heimili. Við höfum farið í margvíslegar Covid-aðgerðir í samstarfi við frjáls félagasamtök og aðra, bæði til þess að valdefla þennan hóp og koma með ákveðið fjármagn þar inn. Og með þeirri aðgerð sem felst í átakinu Hefjum störf náum við líka utan um þennan hóp, af því að hv. þingmaður hefur nefnt hér að þeir sem fari á fjárhagsaðstoð eftir að hafa klárað bótarétt fari niður í 180.000–220.000 kr. fjárhagsaðstoð. Við erum að tryggja störf þar þannig að við erum alltaf með einhverjum hætti að koma með ýmsar aðgerðir sem miða að því að ná til þessa hóps. En höfum við lokið því verkefni? Nei. Ég held að við þurfum að taka utan um þennan málaflokk ekki eingöngu á forsendum almannatryggingakerfisins heldur líka reyna að komast að rót vandans, hvernig við getum valdeflt fólk til að komast úr þessari stöðu. Þar höfum verið að stíga skref, bæði í samstarfi við ýmis frjáls félagasamtök en líka innan ráðuneytisins.

Varðandi námsmenn þá er einstaklingur sem missir vinnuna skráður í virka atvinnuleit. Hann á að vera að leita sér að annarri vinnu. Um það snýst atvinnuleysistryggingakerfið. Við erum hins vegar búin að opna á það að einstaklingur sem er atvinnulaus geti hafið nám og verið á bótum þar til árið eftir, en þá á hann að fara á námslán. Við erum með hvort sitt kerfið þarna og það er ástæða þess að allt frá efnahagshruni hafa menn ekki verið tilbúnir til að stíga þessi skref. Ég kem kannski aðeins betur inn á það á eftir og svara einnig spurningu hv. þingmanns um hlutdeildarlánin.